Mel bjargar meðalmennskunni

Aumingja Mel Gibson! Það hljóta að vera ótrúlega, ótrúlega margar stórstjörnur – bæði fyrrverandi og núverandi – sem eru fordómafullir skíthælar sem segja og gera heimskulega hluti þegar áfengið stjórnar heilanum. Sumar stjörnur ná að leyna því fyrir fjölmiðlum, aðrar sökkva á botninn í augum almennings og gera sig að hneykslandi brandara. Gibson hefur þó verið óheppnari með orðspor og ímynd undanfarin ár heldur en ýmsir aðrir og það er ekki nema hann geri eitthvað stórkostlegt á næstunni því annars mun gamli töffarinn aldrei ná sér almennilega á strik aftur.

Gibson er fyrir mér eins og gömul kærasta sem ég næ ekki að slíta öll tengsl við. Ég er mikill aðdáandi Mad Max, Martin Riggs, William Wallace og Porter svo einhverjir séu nefndir. Gibson getur verið fyndinn, heillandi og naglharður í réttu hlutverkunum og sjaldan eru hreðjarnar á honum stærri en þegar hann setur á sig leikstjórahúfuna. Með stigmagnandi geðsýkisköstum hefur Hollywood-elítan sparkað honum út, og núna hefur leikarinn þrisvar sinnum reynt að punga út „comeback“-myndinni sinni. Og þrisvar sinnum feilað.

Með Edge of Darkness frá 2010 reyndi hann að stuða ferilinn aftur í gang og minna fólk á það að hann getur verið bæði alvörutöffari og alvöruleikari. Það vantaði ekki áhugann og tilþrifin en myndin olli vonbrigðum á háu stigi. Ári seinna reyndi hann aftur sitt besta í The Beaver, en frammistaðan átti betri mynd skilið. Svo kemur þessi mynd, sem veit hreinlega ekkert hvað hún á að heita. Í Evrópu köllum við hana How I Spent My Summer Vacation (sem er asnalegur titill) en í Bandaríkjunum heitir hún Get the Gringo (sem er töluvert betri titill). Eftir að hafa hrasað tvisvar sinnum í röð, tók Gibson loksins til sinna ráða og hrinti þessari mynd í framleiðslu með það markmið að vera harðari og ónýtari en hann hefur verið í langan, langan tíma. Gibson framleiddi myndina, tók þátt í handritinu og réð félaga sinn til að leikstýra. Vacation/Gringo er hrá og grimm og ekki af ástæðulausu. Á þessu stigi verður Gibson greinilega að vera djarfur ef hann á að eiga séns.

Vacation er pottþétt skref upp, þrátt fyrir að líta út eins og B-mynd í besta falli. En það sem bjargar akkúrat þessari B-mynd er sjálfur aðalleikarinn. Handritið heldur rétt svo athygli manns. Í örfáum atriðum sýnir myndin tennurnar en hún er einnig heldur óspennandi og margfalt klisjukenndari en hún gefur sig út fyrir að vera. Tökustíllinn er líka frekar leiðinlegur. Maður sættir sig við hann á endanum, en hann gefur samt myndinni voða pirrandi sjónvarpsþáttafíling, sem er augljóslega hvorki að gera sögunni einhvern greiða né aðalleikaranum. Það er heldur ekki bara kvikmyndatakan sem gefur myndinni þennan hræódýra keim, heldur klippingin og þær fáeinu tæknibrellur sem sáust.

Það eru töffarastælarnir í Gibson (sem minna oft þægilega mikið á karakterinn hans í Payback) sem ná að halda uppi smáfjöri en myndin sem slík er lítið afrek fyrir hann, því skynsamlegra væri bara að kíkja á eitthvað eldra og betra efni með honum. Með sterkara handriti og betri leikstjóra hefðu Gibson-einkennin getað gert gott miklu betra hér, en í staðinn er þetta bara auðgleymd og kunnugleg formúla sem rétt svo batnar með hjálp frá útbrenndum harðhaus.


(6/10)