Stórleikarinn Mickey Rourke hefur skrifað undir samning þess efnis að hann muni leika illmenni í eina af stórmyndum þarnæsta sumars, Iron Man 2. Rourke var nýverið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni The Wrestler.
Viðræður við hann höfðu verið í gangi undanfarna mánuði, en að sögn heimildarmanna var Rourke ekki boðin nógu há laun. Nú hefur sú deila verið leyst og er Rourke víst staddur í Rússlandi þessa dagana til að kynna The Wrestler ásamt því að hefja rannsóknarvinnu fyrir hlutverk sitt í Iron Man 2.

