Aðalleikarar
Leikstjórn
Leikstjórinn Michael Almereyda er ekki beint meðal þekktustu nafna kvikmyndasögunnar og því þykir mér með endemum hvað hann hefur verið heppinn með aðgang að góðum leikurum fyrir þessa mynd. Eflaust hafa þeir Weinstein-bræður hjá Miramax verið með krumlurnar í því og reddað mestum hluta fólksins hér, og er það vel. Maður var nú farinn að halda að nútíma-Shakespeare fyrirbærið væri búið að renna sitt skeið á enda, en svo virðist ekki vera. Enda er væntanlega endalaust hægt að sækja í smiðju meistarans (sjá hina væntanlegu "O" sem er nútíma-unglingaútfærsla á Óþelló). Hugmyndin hér er ansi sniðug. Sögusviðið er Manhattan árið 2000 og hér snýst málið um yfirráðin í Danmerkursamteypunni. Forstjórinn deyr á undarlegan hátt og fyrr en varir er eiginkona hans tekin saman við manninn sem einna helst virðist bera ábyrgð á dauða hans. Sonur hennar, Hamlet (Ethan Hawke, ekki jafn pirrandi og hann getur oft verið), virðist vita að eitthvað sé rotið í Danaveldi. Ég var svo heppinn að komast á sýningu hérna þar sem Almereyda sjálfur var viðstaddur og hann útskýrði margt og svaraði spurningum eftir myndina. Það verður gaman að sjá hvað hann sendir frá sér í framtíðinni þar sem þetta er a.m.k. mjög snilldarleg útfærsla á einhverju útjaskaðasta leikriti allra tíma. "To be or not to be"-ræðan er sett mjög skemmtilega upp hér. Hamlet er svo sannarlega ekki mitt uppáhalds Shakespeare-verk, en ég hafði gaman að myndinni. Hawke er fínn, Julia Stiles á marga góða spretti, og það er gaman að fylgjast með Kyle MacLachlan (sem ég hef dýrkað síðan í Twin Peaks) og gamla brýninu Sam Shepard. Bill Murray er frábær sem Polóníus, og Rosencrantz, Guildenstern, grafarinn, og Fortinbras eru jafnframt stórgóðar persónur í höndum góðra leikara. Liev Schreiber finnst mér alltaf leiðinlegur og hann gerir ekkert fyrir Laertes hér. Eins og venjulega eru Shakespeare-myndir ekki fyrir alla, en þessi fær mín meðmæli hiklaust.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
William Shakespeare, Michael Almereyda
Framleiðandi
Miramax Films
Kostaði
$2.000.000
Tekjur
$1.568.749
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
4. ágúst 2000