Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Ok. Ég var búin að sjá tvær aðrar myndir nýlega sem nutu leikstjórnar og framleiðslu hans Uwe, House of the dead og Alone in the dark. Þið vitið hvað mér fannst um House of the dead, fílukarl, enda ekkert að gerast þar. Alone in the dark skartaði Christian Slater og var örlítið skárri en House of the dead. Ekki get ég nú sagt að þær myndir hafi verið vonbrigði, ég bjóst við að vera með ekta B-myndir í höndunum og það gekk eftir. Hins vegar eru til góðar B-myndir, þ.e. sem eru með fínan söguþráð, leik og tæknibrellur (spurning með tónlistina), en taka sig bara mjög óalvarlega. Nú er komið að BloodRayne, og hún er ekki ein þessara 'góðu' B-mynda, svo það sé á hreinu. Man lítið eftir henni og jafnvel ekki viss um að ég hafi náð að klára hana. Hins vegar fannst mér fílukarlinn ekki viðeigandi, enda voru fínir kaflar í myndinni og hún skartar allmörgum þekktum andlitum sem gera sennilega allt fyrir hana sem hægt er að gera (t.d. voru fínir þeir Ben Kingsley, Michael Madsen og Billy Zane, Michelle Rodriguez var sæmileg, og svo kom sjálfur Meat Loaf fyrir og það kryddaði aðeins myndina). Auk þess er sagan um vampírur og þar af leiðandi fær hún sjálfkrafa plús frá mér... Myndin er gerð eftir vinsælum tölvuleik og gerist á 19. öld í Rúmeníu. Sagan segir frá (hálfu) vampírunni Rayne, sem fer í hefndarleiðangur til að hefna fyrir illa meðferð á móður sinni og fær aðstoð frá tveimur vampíru-veiðurum (Madsen og Matthew Davis). Nóg af bardögum og tilraunum til tilfinningaríkra atriða... Rayne er leikin af Kristönnu Loken (sem flestir þekkja sem vél-kvendið úr Terminator 3), en hún elsku Kristanna var þó ekki alveg að gera sig (og æi búningurinn... mikil skelfing það). Hann Uwe sem leikstjóri er líklega að gera nákvæmlega ekki neitt, því það eru bara góðir (eða reyndir) leikarar sem komast frá hlutverkunum, hinir síðri eru einfaldlega ekki að virka fyrir persónur sínar, sem eru einnig daufar. Og það er einmitt einkenni Uwe (köllum það Uwe-heilkennið), hreinn og klár daufleiki, spennan drepst og sagan drukknar, þrátt fyrir oft á tíðum flott umhverfi og tæknibrellur (og jafnvel ágætis búninga). Sem sagt er BloodRayne dauf, óeftirminnileg mynd sem nær ekki upp spennu eða tengslum við helstu persónur og skilur lítið sem ekkert eftir sig. Það er þó hægt að láta hana rúlla svona ef menn vilja hafa slagsmál og forna tíma í bakgrunninum án þess að þurfa að fylgjast með sögunni... Ég þakka fyrir mig.