Börn er raunsæ og nokkuð átakanleg karakterstúdía. Miðað við íslenskan standard er þessi mynd afar vel heppnuð og það góða við hana er að hún virkilega nær að fanga þennan eymdarlega, kalda raunveruleika sem býr yfir okkar litla samfélagi (ef leitað er á réttum stöðum) og fjölskylduvandamálin eru þannig sett fram að maður trúir hverri einustu senu.
Lítil kátína finnst hérna, öllu heldur er alvarleikinn sýndur í sínu fjölbreyttasta. Þetta orsakar því auðvitað að áhorfið er á köflum mjög þunglynt og væri maður skilinn eftir andlega miður sín ef að myndin væri ekki krydduð fáeinum góðum bröndunum á milli sena. Ég kann annars vel við það hvernig myndinni er stillt upp. Formúlan er að sjálfsögðu hundgömul (þrjár sögur blandaðar í eina) en myndin sjálf er lítið að velta sér upp úr klisjum og hún græðir eiginlega mest á því að vera klikkað vel leikin (Gísli Örn Garðarsson stendur þar allsvakalega upp úr og stóð sig frábærlega). Samtölin, sem mér skilst að séu að mörgu leyti spunnin á staðnum, koma líka ágætlega út og virka mjög náttúruleg. Íslenskar kvikmyndir hafa gjarnan þjáðst fyrir það að vera einmitt mjög þvingaðar og ósannfærandi í samtölum.
Tónlistarnotkunin er afar sérstök. Myndin eiginlega nýtur sín mikið við notkun hennar, þrátt fyrir að hún sé fremur lágstemmd. Myndatakan ásamt klippingunni kemur einnig þó nokkuð vel út. Ég er enn að átta mig á því samt hvað myndin er í raun og veru að segja með því að hafa útlitið í svarthvítu, þrátt fyrir að hafa ekkert út á það að setja nauðsynlega. Kannski er Ragnar Bragason leikstjóri að reyna að sjá til þess að áhorfandanum líði sem verst, svo maður nái að tengja sig betur við persónurnar. Það er mjög einfaldur - og jafnframt ódýr - bragur á framleiðslunni, sem setur nokkuð hversdagslegan svip á myndina. Það er ekkert verið að fegra eitt né neitt og umhverfið er rosalega dautt, á góðan hátt.
Myndin er þó ekki að neinu leyti fullkomin og því miður finnst manni stundum eins og sagan/sögurnar viti aldrei hvert á að stefna, en það fylgir eflaust þegar lítið sem ekkert handrit er til staðar, heldur bara karakterprófílar. Persónan Marínó var heldur ekkert að virka á mig, enda gerði hann mjög lítið. Ólafur Darri stóð sig mjög vel en það hefði mátt gera miklu meira með
þessa persónu. Í hvert sinn sem myndin einblíndi á hann fannst mér hún dala talsvert í flæðinu. Svona "ohhh, ekki hann!" fílingur.
Það er samt mjög sterkur boðskapur í lokin (sem segir manni að sama hversu lágt kominn maður er, þá er alltaf hægt að byrja upp á nýtt) og myndin sýnir ekki bara íslenska eymd á vel heppnaðan máta heldur hefur hún ýmislegt að segja um ósjálfbjörgun, einelti og óöryggi - bara þetta helsta sem fylgir börnum, eða jafnvel fullorðnu fólki sem hegðar sér eins og börn. Það er að vísu ein tiltekin sena sem ég botna ekkert í og það er þegar aðalkrakkinn tekur upp kisu og hendir henni niður ruslalúguna. Hvað var málið með það, Ragnar?
Í einkunn fær myndin hjá mér 7/10 og ég er feginn að hafa getað fengið það tækifæri að líta á hana, sem ég ætlaði fyrst ekki að gera. Ég er vanalega með dálitla fælni gagnvart íslenskum kvikmyndum og hef ég séð þær miklu fleiri slæmar heldur en góðar. Sem betur fer er þessi mynd allt í allt mjög langt frá því að vera hallærisleg eða fráhrindandi, sem þýðir að þetta sé skrefið í réttu áttina fyrir íslenskt drama. Það er komið nóg af þessum leikhústöktum og ég er spenntur að sjá hvað verður úr Ragnari í framtíðinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei