Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Cirque du Freak: The Vampire's Assistant 2009

(Circus of the Freak, Cirque du Freak)

Meet Darren. He's sixteen going on immortal.

104 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 37% Critics
The Movies database einkunn 43
/100

Darren Shan er ungur maður. Hann hittir dulafullan mann á furðusýningu, sem reynist vera vampíra. Eftir röð atburða þarf Darren að yfirgefa sitt hversdagslega líf og fara á flakk með Cirque Du Freak furðufjölleikahópnum, og gerast vampíra.

Aðalleikarar

Fín mynd, pirrandi aðalleikari
Ég er hættur að reyna að vera bjartsýnn gagnvart vampírumyndum og sætti mig við það að á hverjum áratugi sjáum við kannski þrjár góðar, ef við erum heppin. Frekar vil ég láta koma mér á óvart, eins og gerðist þegar ég sá Daybreakers. En í versta falli vonast ég til þess að sjá eitthvað skárra en Twilight-myndirnar. Ég veit ekki hvort það sé útaf þeim hlægilega lágu væntingum sem ég hafði en Cirque du Freak þótti mér bara vera hin ágætasta mynd. Hún hefur skemmtilegan stíl, góða tónlist, fullt af fínum leikurum og ýmsar ferskar hugmyndir. Hún er samt toguð niður af tveimur hrikalega stórum göllum; Sagan hefur vægast sagt ófullnægjandi endi og aðalleikarinn (Chris Massoglia - sem lítur út eins og litli bróðir Jonathan Rhys-Meyers) er Hræðilegur! Já, með stóru h-i.

Það hefði verið minnsta mál að leyfa myndinni að sleppa með sexu í einkunn hefði einhver annar verið í aðalhlutverkinu, vegna þess að aðrir leikarar standa sig afar vel. John C. Reilly er aldrei leiðinlegur alveg sama hversu léleg myndin er og hér nýtur hann sín í botn - og stelur myndinni hiklaust - með kaldhæðnina í hámarki. Aðrir leikarar (t.d. Salma Hayek, Ray Stevenson, Willem Dafoe, Ken Watanabe, Michael Cerveris, Patrick Fugit og Josh Hutchinson) eru lítið annað en skraut, en þau svínvirka sem skraut og passa sig gjarnan á því að láta línurnar sínar ekki hljóma of hallærislega. Það er einmitt eitthvað sem vampírumyndir þurfa alltaf að gæta, og leikstjórinn Paul Weitz virðist gera sér grein fyrir því. Hann forðast barnaskap og gefur myndinni fjölbreyttan tón sem hrærir saman B-mynd, unglingamynd, goth-hrylling og fantasíu. Weitz getur verið ágætis kvikmyndagerðarmaður (a.m.k. er hann örlítið skárri en bróðir sinn, sem seinast gerði New Moon) en samt er það alveg óskiljanlegt að hann skuli hafa sætt sig við þennan Chris Massoglia, sem mengar alla myndina. Ég er ekki að ýkja.

Þessi drengur er ekkert annað en massívur kjánahrollur í mínum augum. Hann er svipbrigðalaus, stífur og sem aðalpersóna sögunnar er hann meira pirrandi heldur en aðlaðandi. Maður á að halda upp á hann en í staðinn langar mann til að kirkja hann. Hann lætur hvern einasta aukaleikara líta út eins og Daniel Day-Lewis í samanburði. Það hefði verið erfitt en ég hefði hugsanlega getað fyrirgefið þessum leik, enda er það Reilly og co. sem ber ræmuna. En svo líður að endi sögunnar og þá allt í einu... hættir hún. Það er eins og einhver dómari hafi stigið inn í myndina og sagt: "við erum að vera á þrotum með tímann. Klárið þetta núna!" Þetta gerir það að verkum að endirinn er algjörlega opinn, og ekki á góðan hátt. Við fáum bara anti-climax og fullt af ósvöruðum spurningum. Ég náði því að aðstandendur ætluðust til þess að svara þessum spurningum í næstu mynd (sem verður aldrei gerð, því þessi floppaði í miðasölunni), en þetta er samt klaufalegur frásagnarháttur og algjör löðrungur framan í smettið á áhorfandanum. Það gengur bara upp að hafa cliffhanger-endi þegar það er 100% víst að önnur mynd verði gerð og það er óskrifuð regla að fyrstu myndirnar í seríum eiga alltaf að geta staðið á eigin fótum. Paul Weitz hefði átt að læra þetta af mistökum bróður síns þegar hann gerði það sama með The Golden Compass.

Cirque du Freak hefði getað orðið að ágætis anti-Twilight-seríu en metnaðinn vantaði alveg. Leikstjórinn var annað hvort bara áhugalaus eða of glær til að sjá það sem hrjáði framleiðsluna. Sumt gengur mjög vel upp en það er ómögulegt að horfa framhjá þessum göllum. Ojæja... a.m.k. skal ég glaðlega þiggja þetta fram yfir Edward og Bellu.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn