Hrollvekjusmellur fær framhald

Kvikmyndaframleiðandinn A24 hefur gefið grænt ljós á gerð framhalds kvikmyndarinnar Talk to Me sem frumsýnd var í dag hér á Íslandi.

Talk to Me er yfirnáttúruleg hryllingsmynd sem gengið hefur framar vonum í miðasölunni í Bandaríkjunum.

Leikstjórar eru YouTube stjörnurnar áströlsku Danny og Michael Philippou, en kvikmyndin er þeirra fyrsta í fullri lengd. Samkvæmt frétt kvikmyndavefsins Variety munu þeir snúa aftur til að leikstýra framhaldinu.

Talk to Me (2022)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.1

Þegar vinahópur uppgötvar leið til að töfra fram anda með smurðri hendi verður hann háður spennunni sem þessu fylgir. Að lokum gengur einn of langt og leysir úr læðingi hræðileg yfirnáttúruleg öfl....

Danny Philippou skrifar handrit ásamt Bill Hinzman. Söguþráður er enn á huldu.

Eins og segir í Variety þá var kvikmyndin frumsýnd 28. júlí sl. og fór fram úr væntingum með að hala inn 10 milljónir Bandaríkjadala í miðasölutekjur á frumsýningarhelginni. Miðasalan varð þar með sú næst mesta fyrir kvikmynd A24 í mikilli dreifingu en myndin í fyrsta sæti er hrollvekjan Hereditary með 13,6 milljónir dala. Síðan þá hefur Hereditary rakað inn 23,3 milljónum dala til viðbótar í Bandaríkjunum.

Nældi í hana á Sundance

A24 nældi sér í Talk to Me á Sundance kvikmyndahátíðinni í byrjun ársins en þar var hún frumsýnd við góðar viðtökur gagnrýnenda. Framleiðslufyrirtækið sýndi myndina síðan á San Diego Comic-Con afþreyingarhátíðinni til að skapa umtal áður en ræman fór í bíóhús.

Myndin segir frá hópi fólks sem uppgötvar hvernig á að særa fram drauga, sem er bara gaman þar til hræðilegur yfirnáttúrulegur kraftur leysist úr læðingi.

Sophie Wilde, Alexandra Jensen, Joe Bird, Otis Dhanji og Miranda Otto leika aðalhlutverk.

Lofsamleg gagnrýni og góðar viðtökur áhorfenda hjálpuðu hinni óttaþrungnu mynd að slá í gegn. Dagblaðið The Washington Post hrósaði myndinni og sagði „Það er ekkert byltingarkennt við barnalega bjána að reyna að komast nær dauðanum. En það er hugvitsamleg blanda hrolls og sambands milli fólks sem gerir Talk to Me að einhverju til að tala um.“