Óvæntasti smellur ársins lengi á ís

Leikstjóri óvæntasta smells ársins í Hollywood, Sound of Freedom, sem frumsýnd var á Íslandi um helgina, Alejandro Monteverde, útskýrði í samtali við vefritið Movieweb afhverju kvikmyndaframleiðandinn Disney ákvað að setja kvikmyndina á ís eftir að fyrirtækið keypti 20th Century Fox kvikmyndafyrirtækið.

Ástæðan er þessi að hans mati. „Þú veist, þegar Disney keypti Fox, hugsaðu þér allt efnið sem fylgdi með og þarf að skoða, vega og meta. Ég held að við höfum dottið milli skips og bryggju. Við erum lítil mynd. Við vorum einnig með samning við Alþjóðlega Fox (e. Fox International), sem er í raun aftar í röðinni en Fox í Bandaríkjunum. Þannig að ég held að þegar samruninn átti sér stað, hafi okkar mynd týnst. Ég held að þetta hafi ekki verið viljandi eins og „Hey, við viljum ekki að neinn taki eftir ykkur.“ Ég held þetta hafi bara verið eitthvað sem gerðist þegar eitt fyrirtæki kaupir annað félag.“

Sound of Freedom (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.6

Hin ótrúlega saga af Tim Ballard, fyrrum fulltrúa í leyniþjónustu Bandaríkjanna. Hann hættir í vinnunni til að helga líf sitt því að bjarga börnum úr klóm alþjóðlegs mansalshring djúpt inni í frumskógum Kólumbíu. Hann leggur allt í sölurnar og þarf að beita mikilli ...

Þá kennir Monteverde einnig faraldrinum um. „Og líka, þú veist, allir héldu eftir COVID að fólk vildi sjá gleðilegar myndir sem væru ekki of þungar. Þannig að okkar mynd fór í raun innar á hilluna útaf því, vegna þess að fólk, strax og það heyrði um hvað myndin fjallaði, þá held ég að hún hafi ekki komið til greina útaf alvarleika efnisins.“

Bjargaði hundruðum barna

Kvikmyndin, sem frumsýnd var í júlí, segir frá fyrrum leyniþjónustumanni sem fer í hættuför til að bjarga hundruðum barna frá mansalshring djúpt í frumskógum Kólumbíu.

Með aðalhlutverk fara Jim Caviezel, Mira Sorvino og Bill Camp.

Sem fyrr sagði var myndin óvæntur smellur og tekjurnar eru þegar þetta er skrifað komnar upp í 173 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum en kostnaðurinn á móti er aðeins 14,5 milljónir dala, eða innan við 10% af tekjunum. (Tölur yfir sýningar utan Bandaríkjanna liggja ekki fyrir enn)

Til samanburðar þá er stórmyndin Mission: Impossible – Dead Reckoning Part One sem frumsýnd var á svipuðum tíma með heildartekjur í Bandaríkjunum upp á 160 milljónir dala (Heildartekjur af sýningum um allan heim eru 526 milljónir dala).