Neeson útlagi í grínvestra MacFarlane?

Nýlega sögðum við frá þvíLiam Neeson væri að fara að leika þvottabjörn í teiknimyndinni Nut Job, en hann er með fleiri áhugaverð verkefni í skoðun. Nú hefur verið tilkynnt að hann eigi í viðræðum um að leika í gamanmyndinni A Million Ways to Die in the West eftir Seth MacFarlane, en þetta verður fyrsta mynd MacFarlane síðan hann leikstýrði Ted.

Margir muna eftir MacFarlane sem kynni síðustu Óskarsverðlaunahátíðar, þó hann sé líklega þekktastur fyrir að vera höfundur Family Guy teiknimyndanna.

Stórleikararnir hafa flykkst til liðs við MacFarlane í þessari nýjustu mynd hans, enda þénaði Ted, frumraun hans sem kvikmyndaleikstjóra, meira en 500 milljónir Bandaríkjadala í bíó á heimsvísu.

Giovanni Ribisi, sem lék þorparann í Ted, mun einnig leika í myndinni sem og þær Amanda Seyfried og Charlize Theron.

Menn líkja þessari mynd við hina frægu grín kúrekamynd Mel Brooks, Blazing Saddles, en A Million Ways to Die in the West fjallar um huglausan bónda að nafni Albert ( MacFarlane)  sem þorir ekki að taka þátt í byssubardaga og kærastan hans ( Seyfried ) yfirgefur hann í kjölfarið. Þegar hann hittir konu ( Theron ) frægs útlaga sem býðst til að kenna honum að skjóta úr byssu, þá sér bóndinn þarna leið til þess að vinna kærustuna til baka, en þess í stað verður hann smátt og smátt ástfanginn af konunni.

Svo vandast málin þegar útlaginn ( Neeson ) snýr aftur og vill konu sína aftur og engar refjar. Ribisi leikur síðan Edward besta vin Alberts, en sá er einfaldur skósmiður sem hangir með kærustu sinni þó svo að hún neiti því alfarið að stunda með honum kynlíf,  þó svo að hún vinni sem vændiskona og stundi þar með kynlíf með öllum öðrum en honum.

Þetta hljómar bara nokkuð vel, eða hvað finnst þér?

Handritið skrifar Seth MacFarlane sjálfur ásamt Alec Sulkin og Wellesley Wild, og MacFarlane mun einnig leikstýra og framleiða ásamt þeim Scott Stuber og Jason Clark. 

Stefnt er að því að hefja tökur myndarinnar í maí nk.