Kvikmyndaleikstjórinn Christopher Nolan, sem mögulega er best þekktur fyrir Batman þríleik sinn, er nú mættur til leiks með nýja mynd, Tenet, eða Kenningu, eins og orðið er þýtt í myndinni. Með eitt aðalhlutverkanna í myndinni fer Robert Pattinson, en svo skemmtilega vill til að hann mun fara með hlutverk Batman í næstu mynd um Leðublökumanninn.
Pattinson hefur áður rætt það hvernig hann stalst af tökustað Tenet til að fara í prufur fyrir Batman, og að hann hafi fengið hlutverkið á fyrsta tökudegi Tenet.
En hvað finnst Nolan sjálfum um að aðalleikari í nýjustu myndinni hans, sé að leika persónu sem hann sjálfur bjó til þrjár kvikmyndir um?
Í samtali við fréttamiðilinn CNA í Singapúr, segir Nolan að hann leyfi Pattinson að ráða ferðinni, fremur en að gefa honum sérstakar hugmyndir um hvernig hann hafi mótað Batman persónuna á sínum tíma.
„Hann spurði mig alls ekki ráða,“ sagði Nolan. „Við vorum hljóðir um málið og virtum hvorn annan í því, eða allt þar til tökum lauk, að segja má. Við spjölluðum eitthvað smávegis, og sögðum tvo þrjá brandara. Við ræddum örlítið um ýmsar hliðar á því sem hann var að fara að takast á við. En ég var himinlifandi með ráðningu hans í hlutverkið. Ég held að hann muni standa sig frábærlega, og ég er mjög spenntur að sjá hvernig hann mótar persónuna.“
Pattinson hefur viðurkennt að hafa átt samtal við Christian Bale, sem lék Batman undir stjórn Nolan, um ákveðinn hlut varðandi það hvernig var að leika Skuggariddarann: Hvernig það var að fara á klósettið í fullum herklæðum.
Tenet er komin í bíó á Íslandi og víða um heim. Kvikmyndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 3. september nk.