Ný Four Weddings fær Jessicu og Nikesh

Nýja Four Weddings and a Funeral þáttaröðin sem streymisveitan Hulu er með í undirbúningi, hefur bætt við sig leikurunum Jessica Williams (2 Dope Queens) og Nikesh Patel (Indian Summers), auk þeirra Rebecca Rittenhouse (Into the Dark: The Body) og John Reynolds (Search Party).

Leikstjóri er Mindy Kaling.

Jessica Williams leikur Jess, Nikesh Patel er Kash, Rebecca Rittenhouse leikur Ainsley, og John Reynolds verður Duffy.

Þættirnir, sem byggðir eru á hinni vinsælu bresku rómantísku gamanmynd Four Weddings and a Funeral frá árinu 1994, segja frá Jess, ungum kosningastjóra frá New York, sem fær boð í brúðkaupsveislu frá gamalli skólasystur sem nú býr í London. Hún drífur sig til Englands, en þar lendir hún í ýmissi persónulegri togstreytu. Sambönd verða til og slitna, pólitísk hneykslismál koma í ljós, skemmtanalífið er skoðað, ástin kviknar, og svo eru auðvitað fjögur brúðkaup og jarðarför.

Handritið skrifa Mindy Kaling og Matt Warburton.

Áætlað er að taka þættina til sýningar á næsta ári á Hulu.