Ný heimildamynd um U2, From the Sky Down, verður opnunarmynd TIFF

From the Sky Down, glæný heimildamynd um írsku rokkhljómsveitina U2 eftir bandaríska kvikmyndagerðarmanninn Davis Guggenheim, mun verða opnunarmynd TIFF, Toronto International Film Festival. Þetta verður í fyrsta skipti í 40 ára sögu hátíðarinnar sem heimildamynd hefur verið valin sem opnunarmynd.
Hátíðin stendur frá 8. – 18. september.

Guggenheim, sem framleiddi og leikstýrði Óskarverðlaunaheimildamyndinni An Inconvenient Truth, sem fjallar um umhverfismál, leikstýrði einnig rokkheimildamyndinni It Might Get Loud og Waiting for Superman.

Í myndinni skoðar hann plötu sveitarinnar frá 1991, Achtung Baby, og veltir fyrir sér afhverju hljómsveitin hefur orðið jafn langlíf og raun ber vitni.

Búist er við að bæði Guggenheim, og meðlimir U2 komi fram á hátíðinni.

Venjan er að opnunarmynd TIFF sé kanadísk, en Cameron Bailey, stjórnandi TIFF, segir að tónlistarheimildamynd um U2 hafi passað vel fyrir hátíðina.

„Þegar allt kom til alls þá var þessi mynd sú sem okkur fannst sýna hátíðina, og um hvað hún snýst, í réttu ljósi,“ sagði Bailey.

Heimildamyndin um U2 verður þó ekki eina tónlistarmyndin á hátíðinni. Eftir velgengni heimildamyndar um kanadísku rokksveitina Rush á síðasta ári, Rush: Beyond the Lighted Stage, þá settu stjórnendur hátíðarinnar aðra sambærilega á dagskrá í ár. Þar er um að ræða heimildamynd um Seattle sveitina Pearl Jam, sem ber heitið Pearl Jam Twenty, sem leikstýrt ef að hinum þekkta bandaríska leikstjóra Cameron Crowe. Í myndinni er farið yfir sögu hljómsveitarinnar frá byrjun og til þessa dags.