Ný Punisher mynd

Myndasögurisinn Marvel og framleiðslufyrirtækið Artisan eru búin að gera með sér samning um að breyta að minnsta kosti 15 mismunandi ofurhetjum Marvels í annaðhvort kvikmyndir eða sjónvarpsþætti. Þeir eru nú komnir vel á leið, þar sem Spiderman mynd er komin, Daredevil og Hulk eru í framleiðslu og þá er næst Punisher. Punisher (Refsarinn?) heitir réttu nafni Frank Castle og er stríðshetja mikil. Glæpamenn myrða fjölskyldu hans, og tapar hann þá algjörlega glórunni. Hann notar þjálfun sína og blóðþorsta til þess að elta uppi glæpamenn og taka þá af lífi án dóms og laga. Þegar hefur verið gerð arfaléleg kvikmynd um hann í kringum árið 1990 og var hann þá leikinn af Ivan Draco sjálfum, Dolph Lundgren. Nú hinsvegar er búið að ráða mann að nafni Jonathan Hensleigh til þess að skrifa handritið og leikstýra þessari nýju endurgerð. Hensleigh þessi hefur komið nálægt myndum eins og Armageddon , Gone in 60 Seconds og Con Air, en vonandi verður þessi mynd í hærri gæðaflokki en þær.