Nýtt í bíó – The Revenant!

Golden Globe verðlaunamyndin The Revenant, sem tilnefnd er til 12 Óskarsverðlauna, og er með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki, verður frumsýnd á föstudaginn hér á landi í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Í myndinni er sögð sönn saga Hughs Glass sem skilinn var eftir í óbyggðum nær dauða en lífi árið 1823 eftir árás bjarnar. En Hugh lifði af og gríðarlega illa særður eftir björninn, fótbrotinn, vopnlaus og matarlaus náði hann samt sem áður að komast um 320 kílómetra leið að byggðu bóli, staðráðinn í að hefna sín á mönnunum sem skildu hann eftir.

Í tilkynningu frá Senu segir að Leonardo DiCaprio fari með ótvíræðan leiksigur í hlutverki Glass,  og margir hafi spáð honum Óskarsverðlaunum í febrúar.

revenant poster

Myndin hlaut í heildina tólf Óskarstilnefningar, þar á meðal fyrir bestu mynd, bestu leikstjórn, besta leikara í aðal- og aukahlutverki (Tom Hardy), bestu kvikmyndatöku og bestu tæknibrellur.

Með önnur hlutverk í myndinni fara Will Poulter og Domhnall Gleeson.

Áhugaverðir punktar til gamans: 

– The Revenant var kvikmynduð í réttri tímaröð á áttatíu dögum sem dreifðust á níu mánaða tímabil vegna þess að leikstjórinn Alejandro G. Iñárritu vildi eingöngu notast við náttúrlegt ljós við tökur, þ.e. dagsbirtu.

– Myndin er að hluta til byggð á bók rithöfundarins Mickaels Punke, The Revenant: A Novel of Revenge, sem kom út árið 2002. Þess má geta að myndin Man in the Wilderness sem var gerð árið 1971 var einnig byggð á sögu Hughs Glass og raunum hans í óbyggðum.

–  Tónlistin í myndinni er að miklu leyti eftir Ryuichi Sakamoto sem hlaut Óskarsverðlaunin fyrir tónlistina í The Last Emperor árið 1988, en hefur lítið samið fyrir bandarískar kvikmyndir síðan.

– Heiti myndarinnar, The Revenant, er dregið af latneska orðinu „reveniens“ sem var notað um þá sem sneru aftur frá dauðum.