Nýtt plakat: We Bought a Zoo

Bandaríski leikstjórinn Cameron Crowe hefur legið í dvala síðan hann gaf út Elizabethtown árið 2005 og hefur nú loks stigið aftur á svið til að færa okkur sína fyrstu leiknu kvikmynd í sex ár, We Bought a Zoo. Cameron Crowe er þekktur fyrir að hafa skrifað og leikstýrt myndum á borð við Say Anything, Jerry Maguire, Vanilla Sky og Almost Famous sem hlaut óskarsveðlaun fyrir handrit myndarinnar.

We Bought A Zoo fjallar um fjölskyldufaðirinn Benjamin Mee(höfund bókarinnar sem myndin er byggð á), leikinn af hjartaknúsaranum Matt Damon, sem flytur ásamt fjölskyldu sinni í sveit þar sem þau reyna að gera upp lúinn dýragarð og opna hann á ný.

Íslenski tónlistarmaðurinn Jón ‘Jónsi’ Þór Birgisson semur tónlist myndarinnar fyrir Crowe, enda hafa leiðir þeirra legið saman áður þegar Crowe notaði lag eftir Sigur Rós í myndinni sinni Vanilla Sky. Þetta er ekki fyrsta nýlega verkefni Jónsa í Hollywood þar sem hann samdi einnig kreditlag tölvuteiknimyndarinnar How To Train Your Dragon á síðasta ári.

Meðfylgjandi er nýja plakatið fyrir We Bought a Zoo sem birt var á vefsíðu The Uncool í gær og ég verð að segja að mér finnst það ansi smekklega samsett.

Sem aðdáandi kvikmynda Cameron Crowes er ég ansi spenntur yfir endurkomu hans í leikstjórastólinn, hvað finnst mönnum?