Önnur Kryddpíumynd sögð vera í pípunum

Stúlknasveitin Spice Girls eða Kryddpíurnar eru með nýja kvikmynd á teikniborðinu, eða svo herma heimildir slúðurmiðilsins The Sun. Segir þar að fjórir meðlimir bandsins – þær Geri Horner, Melanie C, Mel Burton og Emma Bunton – hafi nálgast handritshöfund. Áætlanir þessar eru enn á forvinnslustigi en stefnt er að því að tjalda öllu og meira til með útgáfu á næsta ári. Þá fagnar stúlknasveitin 25 ára afmæli sínu.

Spice Girls slógu rækilega í gegn með laginu Wannabe árið 1996 sem landaði efsta sætinu á vinsældalistum 37 landa. Heimsfrægð, breiðskífa og kvikmynd fylgdu í kjölfarið en tveimur árum síðar hætti Geri Haliwell. Sveitin hélt þá áfram starfsemi sem kvartett en héldu meðlimir hverjir sína leið um aldamótin.

Árið 1997 kom út stuðmyndin Spice World, ekki löngu áður en Geri yfirgaf hópinn. Bíómyndin hlaut dræmar viðtökur gagnrýnenda en var stjörnum prýdd og hefur lifað góðu lífi sem „költ“ moli. Á meðal leikenda í þeirri mynd má nefna t.d. Roger Moore, Richard O’Brien, Jennifer Saunders, Richard E. Grant, Meatloaf, Alan Cumming og Bob Hopkins.

Árið 2007 komu Kryddpíurnar saman aftur og fóru í tónleikaferðalag til að fagna útgáfu safnskífu með þekktustu lögum þeirra. Sveitin lagðist svo aftur í dvala, utan þess að þær komu fram á lokaathöfn Ólympíuleikanna í London árið 2012.

Ekki er vitað hvort Victoria Beckham verði með í för í næstu bíómynd, ef úr henni verður.