Orðljóta ofurhetjan snýr aftur

Í stuttu máli er „Deadpool 2“ hreint makalaus samsuða af grófum húmor, grófu ofbeldi og væmnum boðskap.

Deadpool/Wade Wilson (Ryan Reynolds) er orðinn réttlætissinnaður málaliði sem berst bara við vonda kalla. Allt gengur vel með kærustunni Vanessu (Morena Baccerin) og þau tilbúin að fjölga mannkyninu. En allt gengur ekki eins og í sögu og fyrr en varir er Wade kominn aftur í harða baráttu þar sem hann verndar stökkbreyttan strák að nafni Russell (Julian Dennison) frá hálfmennsku vélmenni úr framtíðinni (Josh Brolin).

Þessar „Deadpool“ myndir eru spes ofurhetjumyndir. Það er öðruvísi húmor í þeim og þær eru gerðar fyrir fullorðna og velta sér upp úr öllu því ofbeldi og limlestingum sem R-stimpillinn veitir. Fjórði veggurinn er ítrekað brotinn, mikið af gríninu gerir út á aðrar ofurhetjumyndir og vísað í tilkomu karaktera í hasarmyndablöðunum og svo framvegis. Húmorinn er frekar grófur á köflum og orðbragð frekar sóðalegt; meira að segja hjá krakkanum. Til að sletta smá þá er þetta allt svona pínu „absúrd“. Svona nálgun er líklegust til að slá í gegn hjá áhorfendum eða falla flatt og það síðarnefnda á við hjá þessum rýni. Sumir brandarar virka ágætlega en flestir klikka.

Myndin tekur kipp uppávið eftir hlé og undirliggjandi þemað um mikilvægi samheldni og nauðsyn þess að láta heift ekki umlykja sálartetrið fær að njóta sín innan um ógurlega löng og hávær hasaratriði. Lokamínúturnar hægja svo mikið á atburðarrásinni og hamra heim þessum punkti með frekar næmum hætti (og eðal fallegri órafmagnaðri útgáfu af „Take on Me“ með A-ha) og dramatísk þungamiðja myndarinnar kemst ágætlega til skila. En þessi væmni á vafalaust síður upp á pallborðið hjá hópnum sem dýrkaði allt fyrir hlé.

Ryan Reynolds er skemmtilegur leikari og fer létt með að glæða Wade lífi og fer vel með allar línurnar sem hann fær. En enn og aftur er það Josh Brolin sem stelur senunni en leikarinn er nýbúinn að láta ljós sitt skína í „Avengers: Infinity Wars“ sem er enn í sýningum.

„Deadpool 2“ er hreint makalaus samsuða af súrum svörtum húmor, grófu ofbeldi og óvenju hjartnæmum lokamínútum sem koma tímalausum boðskap vel til skila. Það er erfitt að ímynda sér að allir gangi alveg 100% sáttir frá.