Þá er komið að því, RIFF er lokið og allir byrjaðir að týna saman hvað þeir sáu á hátíðinni, hvaða viðburðir stóðu upp úr, og hversu mikið menn náðu ekki að sjá. Þetta er þó enginn samantektarpistill (hann kemur síðar) heldur ætla ég einungis að fjalla um það sem ég sá á lokadegi hátíðarinnar þó myndirnar séu ekki nema bara tvær talsins.
Uppselt var á Kon-Tiki þannig ég skellti mér beinustu leið í fjórða sal Háskólabíós (ég hafði gleymt að það væru salir á neðri hæðinni) þar sem kvikmyndin Lífið er ekki fyrir skræfur tókst að lokka þokkalega marga í sæti og draga fram góðan hlátur út sýninguna, en ég var því miður ekki nógu hrifinn af myndinni.
Fyrstu tveir þriðjungarnir eru frekar pínlegir því myndin virðist ekki halda nógu þétt utan um punktinn sinn og missir algjörlega tök á hvað hún vill fjalla um og hvernig, eða þar til síðasti þriðjungurinn fer af stað og bjargar myndinni fyrir horn. Þetta er svo sem ásættanleg karakterstúdía sem vantaði meiri fókus, en í fyrsta hluta myndarinnar tókst myndinni mjög illa að brúa tengingu milli mín og persónanna því aðalpersónurnar virkuðu eins og þær væru rúmlega áratugs gamlar stereótýpur.
Vel unnin, fanta vel leikin, og mjög góð á lokasprettinum en virkar því miður of stefnulaus og sjálfhverf í fyrstu tveim hlutunum. Ég mæli ekkert sérstaklega með henni nema á verulega dauðu kvöldi heima fyrir.
Að myndinni lokinni var ferðinni heitið í sal 2 en þar sem þónokkur bið var í næstu ræmu var tilvalið tækifæri til að svipast um á staðnum. Milli miðasölunnar og sjoppunnar í Háskólabíói höfðu sjálfboðaliðar á vegum Amnesty International mannréttindasamtakanna komið sér fyrir. Þetta fína og frábæra fólk var að safna undirskriftum til að senda til Kína en þetta tengdist mannréttindamáli sem er fjallað m.a. um í einni myndinni sem Amnesty stóð að á hátíðinni og sýnd var í gær, Ai Weviei: Engin miskunn. Meira um málefnið og myndirnar tvær sem Amnesty stóð fyrir á hátíðinni má lesa á síðu þeirra hér.
Að lokum var það síðan óvissubíóið/lokamyndin, þar sem salurinn fylltist. Ef ég miða við viðbrögð fólksins í kringum mig vissu fáir í raun hvernig og hvaða mynd Jagten eftir Thomas Vinterberg væri, en þeir sem hafa kynnt sér hana vita að hér á ferð er blýþung og gífurlega átakanleg kvikmynd.
Jagten er ekki bara besta myndin sem ég sá á RIFF, þetta er ein besta kvikmynd sem ég hef séð á þessu ári. Eftir myndina er eins og maður hafi gleypt stein því hún ristir svo djúpt og skilur eftir sig mjög stórar og alvarlegar spurningar. Ég man ekki hvenær ég sá svona hreðjamikla og vandaða samfélagsrýni í kvikmynd og vægast sagt eru málefni myndarinnar bæði grafalvarleg og bítandi.
Efnistök Jagten eru verulega vönduð á blaði og í vinnslu. Það er samt ekki fínpússuð og markviss leikstjórn Thomas Vinterberg sem heldur manni í heljargreipum, heldur er það magnaður leikhópur myndarinnar sem selur þér atburðarrásina, og þá sérstaklega Mads Mikkelsen sem kom, sá, og sigraði í aðalhlutverki myndarinnar. Hann rýnir djúpt í sálarlíf persónu sinnar og skilur eftir sig verulega þungan og eftirminnilegan leik sem á allt sitt lof skilið.
Jagten er skuldlaust skylduáhorf sem grípur þig, hristir rækilega upp í samfélagskenndinni, og nagar mann svakalega eftir áhorf. Mikilvæg kvikmynd sem verður vonandi umtöluð á næstu árum.
PS: Við Íslendingarnir þurfum virkilega að læra hvernig skal mynda raðir fyrir sýningar og viðburði. Ég er verulega þreyttur á að standa í röð og sérstaklega þegar frekjuskapur verður til að röðin breytist á endanum í eina stóra súpu af fólki þar sem allir þjóta inn þegar salurinn er opnaður. Þetta er vægast sagt leiðinlegt og ókurteist almennt gagnvart þeim sem hafa staðið í röð.