Íslenskar hljómsveitir og þýskur tunglkarl á RIFF – umfjöllun

Upphaflega ætlaði ég að fjalla um þrjár myndir gærdagsins en þar sem hætt var við eina sýninguna (Marco Macaco) og önnur var uppseld (Skeppnur Suðursins Vilta) gafst mér einungis færi á að sjá tvær, en þær reyndust verulega ólíkar.

Sú fyrsta var franska heimildarmyndin Ég er í Hljómsveit sem fylgir nokkrum duglegum Íslendingum sem eiga allir eitt sameiginlegt; þeir spila allir tónlist og eru í hljómsveit. Það virðist þó vera mikið ósamræmi á milli Íslendinganna sem koma fram í myndinni og framleiðanda myndarinnar. Íslendingana langar að deila þessu skemmtilega hugarfari að  íslenskar hljómsveitir séu verulega margar miðað við höfðatölu en myndin virðist aðallega vilja fá innsýn inn í ferlið á bak við tónsmíðar landsins. Útkoman er ansi ójöfn og óáhugaverð þó myndin sé ekki nema rúmar 52 mínútur.

Þó að Ég er í Hljómsveit langi til að deila með erlendum áhorfendum þessum heimilislega og vinalega tónlistarvettvangi tekst það ansi illa og Íslendingarnir sem teknir eru fyrir virka mun kjánalegri en þeir eru og jafnvel óvart tilgerðarlegir. Kannski hefur það eitthvað að gera með að allir þurfi að tala (bjagaða) ensku eða því hvaða myndefni var valið, því myndin er ansi fjarri því að vekja áhuga á einstaklingunum þó þeir séu litríkir og hæfileikaríkir. Breska talsetningin er að mestu leyti ýkt eða í ósamræmi við myndina og það hjálpar ekki að nöfn fólksins í myndinni eru oft borin fram kolvitlaust. Áhugaverð hugmynd en illa skipulögð og óáhugaverð útkoma sem tekst að einhverju leyti að kynna heimilislegu tónlistardýrkun landans en skilur ekki eftir sig neinn varanlegan áhuga.

Næst var það ein af myndunum sem ég hef verið ansi spenntur að sjá síðan dagskrá RIFF var kynnt, en það var þýska teiknimyndin Kallinn í Tunglinu. Myndin er byggð á barnabók og myndin endurspeglar kjarnahóp sögunnar þar sem hún er augljóslega hönnuð og samin fyrir yngstu áhorfendurna. Mig minnir þó að engin börn hafi verið á sýningunni en salurinn skemmti sér nokkuð vel yfir myndinni í gær og miðað við hláturinn heppnaðist myndin ansi vel fyrir eldri áhorfendur.

Það sést að myndin hafði takmarkað fjármagn en engu að síður lítur hún ansi merkilega út þó kvikmyndunin sjálf sé ekki upp á marga fiska. Myndin er verulega súr og skemmtileg, oft troðin af æðislega abstrakt hugmyndum, en tekst illa að koma sögunni sinni nógu vel til skila og myndin virkar aðeins of löng fyrir vikið. En engu að síður er myndin ljúf, hjartagóð og sjónrænt séð mjög áhugaverð. Mjög ásættanleg afþreying.

Eftir myndina var Q&A með leikstjóra myndarinnar (sem leit dálítið út eins og þýskur Michael Keaton) en þar greindi hann m.a. frá því að myndin var öll handteiknuð og framleidd fyrir einungis fjórar milljónir evra. Einnig er þetta fyrsta kvikmynd leikstjórans, en hið merkilegasta var án efa að hann sagðist ekki hafa teiknað einn einasta ramma í myndinni þar sem hann væri ekki flinkur með blýantinn. Vægast sagt kom sú staðreynd mjög á óvart og ég kann að meta myndina aðeins meira með þessa staðreynd á bak við eyrað.