Priyanka vill verða Batgirl

Eftir mikla velgengni Wonder Woman í miðasölunni nú um helgina, sem helgast m.a. af góðu handriti, liprum samleik og sjónrænt flottum atriðum, þá velta kvikmyndaunnendur nú fyrir sér hvaða næsta kven-ofurhetja er úti við sjóndeildarhringinn. Ef allar áætlanir ganga eftir yrði það Batgirl, í leikstjórn Avengers leikstjórans Joss Whedon, og nú þegar hefur ein leikkona rétt upp hönd og sýnt áhuga á hlutverkinu, Baywatch illmennið Priyanka Chopra.

Sagt var frá því fyrst í mars sl. að Batgirl væri komin á dagskrá, en auk þess að leikstýra þá mun Whedon skrifa handritið.

Chopra, sem er ættuð frá Indlandi, hefur slegið í gegn í Hollywood, en auk Baywatch, þá hefur hún leikið við góðar undirtektir í ABC sjónvarpsdramanu/spennutryllinum Quentico, þar sem hún leikur Alex Parrish.

Chopra sagði við OK! tímaritið breska á blaðamannafundi vegna Baywatch á dögunum, að hún vonaðist til að klæðast búningi ofurhetju einn daginn, og væri meira en til í að leika hlutverk Barbara Gordon, öðru nafni Batgirl, í mynd Whedon. Tilboð er þó ekki á borðinu að hennar sögn.

„Draumahlutverk mitt, nú þegar ég starfa í Bandaríkjunum, er klárlega ofurhetjuhlutverk […] Batgirl myndi verða mjög svalt hlutverk!“

Alicia Silverstone lék Batgirl í Batman og Robin frá árinu 1997.