Ráðið í hlutverk Jeff Buckley

Lengi hefur staðið til að gera kvikmynd byggða á ævi hins goðsagnakennda Jeff Buckley. Ótalmargir leikarar hafa komið til greina á þeim tíma en nú hefur hinn ungi Reeve Carney hreppt hlutverkið. Ekki eru margir sem þekkja til Carney en um þessar mundir fer hann með aðalhlutverkið í hinum umtalað Spider-Man söngleik, Spider-Man: Turn Off the Dark.

Myndin hefur enn ekki hlotið titil en verður unnin í samstarfi við móður Buckley. Hún sagðist ánægð með leikaravalið, enda óneitanlegur svipur með þeim Carney og Buckley. Sonur leikstjórans Ridley Scott, Jake Scott, mun leikstýra myndinni, en honum var gefinn aðgangur að persónulegum eigum söngvarans. Eins og margir þekkja eflaust til var Jeff Buckley einn efnilegasti tónlistarmaður sinnar tíðar, en hann gaf aðeins út eina plötu. Hann lést aðeins 30 ára að aldri.