Reiknað með skorti á sjónvarpsefni í haust: „Þá verðum við bara að tala saman og spila.“

„Þetta er það sama alls staðar. Þetta er bæði með kvikmyndir sem eru að fara í tökur, sem eru í tökum eða kvikmyndir sem á að frumsýna. Það er enginn að fara að frumsýna neins staðar núna því það er enginn að fara að mæta á sýningar í þeim bíóhúsum sem eru opin, eða afskaplega fáir. Þannig að það myndi vera rosalegt tap fyrir þær myndir að fara út.“

Þetta segir Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdarstjóri framleiðslufyrirtækisins Pegasus og meðstjórnandi í sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda.

Lilja Ósk Snorradóttir

Í viðtali við Síðdegisþáttinn á K100 tjáði Lilja sig um ástandið í kvikmyndaiðnaðinum og segir það vera mjög alvarlegt en flestum þeim verkefnum sem áætluð voru á næstunni hefur verið frestað vegna útbreiðslu COVID-19.

„Við erum ekki að verða uppiskroppa með íslenskt sjónvarpsefni en staðan er svipuð og annars staðar í heiminum í dag,“ segir Lilja.

„Þetta er ofsalega keðjuverkandi. Þú gerir endalaust af plönum og það þarf allt að ganga upp. Bæði þurfa leikarar að vera lausir og tökufólk, hótel og tökustaðir og allt þetta þannig að það að segja að við frestum um þrjár vikur er ekkert endilega hægt. Þú sem leikari ert búinn að binda þig í einhver önnur verkefni sem eiga akkúrat að byrja þegar hitt verkefnið átti að klárast.“

Segir Lilja einnig að þetta gæti leitt til þess að myndist gat í sjónvarpsefni á heimsvísu næstkomandi haust vegna allra þeirra verkefna sem hafa frestast vegna kórónuveirunnar. Spurð út í það hvort fólk mætti búast við að vera afþreyingarlaust í haust svarar Lilja hress: „Þá verðum við bara að tala saman og spila.“