Ridley Scott vill endurgera kóreska hrollvekju

Yfirmaður kvikmyndafélagsins Fox International í Kóreu, Kim Ho-Sung, segir í nýju samtali við Screen Daily að framleiðslufyrirtæki Alien leikstjórans Ridley Scott, Scott Free Productions, eigi nú í nánum í viðræðum um að kaupa endurgerðarréttinn á kóreska smellinum, hrollvekjunni The Wailing, eftir Na Hong-jin.

kwak-do-won-the-wailing-still

„Þeir sögðu að The Wailing minnti þá á kvikmyndir eins og The Exorcist, The Ring og Seven,“ sagði Kim. „Smábæjartilfinningin í The Wailing er svo sterk, að ég held að það verði ekki auðvelt að gera vestræna endurgerð, og þá skiptir það miklu máli hver komi til með að leikstýra myndinni. Þannig að ég sagði honum að ég teldi að eini leikstjórinn sem réði við að gera myndina væri Na Hong-jin sjálfur. En við eigum enn í viðræðum um þetta. Við förum varlega. Eins og þið vitið þá er mikið af endurgerðum í Hollywood í vinnslu, sem komast svo ekki á endastöð, alla leið í framleiðslu.“

The Wailing gerist í sveitaþorpi í Suður Kóreu. Röð óútskýrðra dauðsfalla fara að gerast, eftir að í bæinn kemur dularfullur ókunnugur maður. Þegar dóttir lögreglumanns í bænum verður eitt fórnarlambanna, þá dregst hann inn í ráðgátuna, og leitin að lækningu við því sem dró fólkið til dauða, verður sífellt örvæntingarfyllri.