MGM kvikmyndaverið ætlar að búa til myndina Creed, í leikstjórn Ryan Coogler, sem yrði hliðarsaga af Rocky myndunum goðsagnakenndu.
MGM á nú í viðræðum við aðalleikarann úr hinni rómuðu kvikmynd Fruitvale Station, sem Coogler leikstýrði einnig, Michael B. Jordan, um að leika aðalhlutverkið í myndinni; barnabarn Apollo Creed, sem var mótherji Rocky Balboa í Rocky 1.
Sylvester Stallone myndi snúa aftur í hlutverki Rocky, sem yrði sestur í helgan stein og orðinn þjálfari.
Fruitvale Station vann bæði aðal dómnefndarverðlaunin og aðal áhorfendaverðlaunin á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar sl. Myndin hlaut einnig Prize Of The Future á Cannes kvikmyndahátíðinni í vor.
Deadline vefurinn segir að Creed sé draumaverkefni Coogler, og hann hafi borið það undir Stallone, sem hafi verið mjög hrifinn af hugmyndinni.
Myndin myndi fjalla um barnabarn Apollo Creed eins og áður sagði, sem er alinn upp við góðan kost, enda rakaði afi hans saman seðlum í boxhringnum í gamla daga. Ungi maðurinn þarf ekki að stunda hnefaleika og fjölskylda hans er því líka fremur mótfallin. Málið er samt að hann hefur mikla hæfileika á því sviði, sem hann hefur erft frá afa sínum, en Apollo Creed varð heimsmeistari í Rocky 1 og hélt þeim titli þar til Rocky Balboa vann titilinn af honum í Rocky 2.
Nú þarf hinn ungi Creed að verða sér úti um góðan þjálfara og snýr sér til Balboa, sem er alfarið hættur í bransanum og hefur enga löngun til að snúa aftur.
Í Rocky myndunum var Balboa aðal andstæðingur Apollo Creed en þeir urðu svo síðar meir bestu vinir, eða allt þar til Balboa varð við óskum Creed og stöðvaði ekki bardaga hans við sovéska tröllið Drago ( sem Dolp Lundgren lék í Rocky 4 sem var frumsýnd árið 1985 ) en Drago lamdi Creed í spað að lokum og drap hann í hringnum.