Sagnaheimur Ghibli krufinn með keppni: „Það vilja allir eiga Totoro-bangsa“

Á skemmtistaðnum Gauknum fer fram svokallað pubquiz (e. Barsvar) annað kvöld um sagnaheim Studio Ghibli kvikmyndanna. Höfundur spurningakeppninnar, Hilmar Smári Finsen, sér um ýmis konar pubquiz á margvíslegum börnum í frítíma sínum og segir í samtali við Lestina á RÚV að hann hafi áður séð um sambærilega keppni fyrir annan skemmtistað. Hafi hann þá unnið alla heimavinnuna og skaðar ekki gífurlegur áhugi hans á Studio Ghibli-myndunum almennt.

„Margir myndu segja að þetta sé japanska Disney. Þegar kemur að myndum frá þeim eru þeir með svo mikið af góðum sögum og krúttlegum karakterum. Það kannast til dæmis allir við Totoro og það vilja allir eiga þannig bangsa. Það er líka hjartað sem er alltaf í fyrirrúmi með öllum krúttleikanum. Myndirnar tala aldrei niður til áhorfenda og segja þér oft blákaldan sannleikann og óttast þess ekki að vera drungalegar,“ segir Hilmar og undirstrikar það hversu „skíthræddur“ hann hafi verið þegar hann horfði á Princess Mononoke á æskuárunum.

Hilmar Finsen.

Að sögn Hilmars stuðla sögurnar frá Studio Ghibli ávallt að jákvæðum gildum, með áherslu á fegurð og vináttu og séu þemun gegnumgangandi. „Stíllinn þeirra er að mínu mati flottari og viðkunnanlegri heldur en öðrum asískum stúdíóum. Þetta er líka góður upphafspunktur fyrir alla sem vilja kynna sér víðari heim anime-mynda.“

Undir lok síðasta árs voru stafrænar útgáfur af Studio Ghibli-myndunum loks orðnar aðgengilegri áhorfendum og hafa þær tínst smám saman inn á streymisveituna Netflix; nokkrar í byrjun febrúar og fleiri í byrjun mars. Þetta þykja mikil gleðitíðindi fyrir aðdáendur teiknaðra gæðakvikmynda og því ekki ólíklegt að margir Íslendingar hafi sökkt sig ofan í katalog kvikmyndaversins undanfarnar vikur.

Nánar um Ghibli-Barsvarið má finna hér.