Schwarzenegger með risaeðlulöggum

Á dögunum bárust þær nokkuð undarlegu fréttir að Michael Fassbender og David Hasselhoff myndu leika í nýrri mynd David Sandberg, Kung Fury, og núna var að berast sú fregn, samkvæmt Joblo kvikmyndavefsíðunni, að sjálfur Arnold Schwarzenegger væri einnig um borð.

Um er að ræða mynd með þónokkrum B-mynda blæ, með risaeðlulöggum, blóðþyrstum valkyrjum, og auðvitað fullt af tilvísunum í níunda áratug síðustu aldar, svokallað eitís!

Söguþráðurinn er á þessa leið: Árið er 1985. Kung Fury heldur uppi lögum og reglu í Miami í Bandaríkjunum,  og er besta lögga allra tíma. Kong Fury Thundercops sérsveitin samanstendur af allskonar liði frá öllum tímum mannkynssögunnar, og berst við Kung Fuhrer, sem er Adolf Hitler. Eftir að ein af löggunum lætur lífið með hörmulegum hætti, þá flosnar sveitin upp, og upp rís dularfullur óþokki sem hjálpar Fuhrer að ná hræðilega hættulegu vopni. Kung Fury þarf nú að ferðast í gegnum tíma og rúm, til að bjarga vinum sínum, vernda hina virtu Kung Fu Akademíu, og sigra hið illa í eitt skipti fyrir allt.

Þetta verður eitthvað!