Sigraði hjörtu víða og hreppti hlutverk Napóleons

Bandaríski leikarinn Joaquin Phoenix hefur verið ráðinn í hlutverk smávaxna stórmennisins Napóleons Bónaparte í væntanlegri kvikmynd frá Ridley Scott. Myndin mun bera heitið Kitbag og segir frá yngri árum Napóleons og upprisu hans sem herforingi frönsku byltingarinnar. 

Áætlað er að tökur á Kitbag hefjist ekki fyrr en eftir að Scott hefur lokið við kvikmyndina The Last Duel. Handritið er þar í höndum félaganna Matt Damon og Ben Affleck og fara þeir jafnframt með helstu hlutverk ásamt Jodie Comer og Adam Driver.

Kitbag verður þó fyrsta samstarf þeirra Scott og Phoenix í tuttugu ár. Árið 2000 fór hann eftirminnilega með hlutverk keisarans Kommódusar í stórmyndinni Gladiator. Myndin vann til fjölda verðlauna á sínum tíma og hlaut Phoenix jafnframt tilnefningu fyrir sinn leik.

Jóker og River

Óhætt er að segja að 2020 hefur reynst Phoenix nokkuð sterkt og gefandi ár. Eins og mörgum er kunnugt hlaut hann (meðal annars) Óskarsstyttu í febrúar síðastliðinn fyrir titilhlutverk sitt í Joker og eignaðist sitt fyrsta barn í september. Þau Rooney Mara eignuðust son sem hlaut nafnið River, í höfuðið á bróður Joaquin, leikaranum River Phoenix heitnum sem lést árið 1993. Nafnagift þessi vakti mikla athygli víða um veraldarvefinn og sigraði hjörtu ófárra sem tjáðu sig á samfélagsmiðlum.

Þau Mara og Phoenix trúlofuðust í fyrra og  kynnt­ust þegar þau léku sam­an í kvik­mynd­inni Mary Magdalene árið 2016. Má þess geta að sú mynd var eitt af síðustu verkefnunum sem tónskáldin Hildur Guðnadóttir og Jóhann Jóhannsson unnu að saman, en Hildur braut einnig blað í sögu Íslendinga með sínum styttum í ár fyrir Jókerinn.