Sjáðu nýtt efni úr X-Files Revival

Eins og við höfum sagt frá áður hér á síðuni þá er von á nýjum X-Files þáttum í Bandaríkjunum á nýja árinu, en þá munu þau Fox Mulder og Dana Scully rannsaka á ný yfirskilvitlega og illskiljanlega hluti.

Þættirnir ganga undir nafinu The X-Files revival og frumsýning verður í janúar nk.

x-files

Fox sjónvarpsstöðin hefur nú birt myndband af gerð þáttanna, en í myndbandinu má fá smá innsýn í hvað menn mega búast við.

Í myndbandinu sést á bakvið tjöldin og einnig sjást stutt atriði, auk þess sem farið er í saumana á því hvað þættirnir sex innihalda.

Rétt eins og í upprunalegu þáttunum þá er þáttunum skipt í dulræna þætti, þar sem fjallað er um leitina að lífi í geimnum og hvernig yfirvöld reyna að hylma yfir sönnunargögn, og svo eru það skrímslaþættir, en það eru stakir þættir sem eru ekki í beinu samhengi við aðra þætti, svokallaðir „Skrímsli vikunnar“.

Fyrsti og sjötti þátturinn í seríunni munu fjalla um hið dulræna, en þættirnir fjórir í miðjunni fjalla um skrímsli.

Flestir upprunalegu leikararnir og aðstandendur úr X-files þáttunum mæta til leiks á ný. „Þetta var í raun eins og að kalla alla hljómsveitina saman aftur,“ segir höfundur þáttanna Chris Carter í myndbandinu. „Þetta er allt fólkið sem hjálpaði til við að gera The X-Files þættina á sínum tíma.“