Fjórða myndin í Despicable Me seríunni sívinsælu (og í rauninni sú sjöunda þar sem margdáðu skósveinunum bregður fyrir) skaust beint í toppsæti íslenska aðsóknarlistans nú um helgina og velti þar með nýjustu stórmynd Pixars úr sessi. Tilfinningarnar í Inside Out 2 höfðu haldið óhaggandi vinsældum í efsta sæti listans síðastliðnar þrjár vikur en nú hafa tæplega 40 þúsund Íslendingar séð þá mynd.
Gru og félagar í Despicable Me 4 áttu þrusuflotta innkomu en rúmlega 11 þúsund manns sáu þá í bíó um helgina.
Despicable Me 4, eða Aulinn ég 4 eins og kvikmyndin heitir á íslensku, fylgir þeim Gru, Lucy og stelpunum, Margo, Edith og Agnes, og fagna þau nýjum meðlimi fjölskyldunnar, Gru Jr., sem er staðráðinn í að gera föður sinn gráhærðan. Gru eignast einnig nýjan erkióvin í Maxime Le Mal og kærustu hans, Valentina, og fjölskyldan þarf að leggja á flótta.
Vinsældir á heimsvísu
Aðsókn teiknimyndarinnar á heimsvísu sýnir glöggt að börn og fjölskyldur hafa enn gaman að Gru-fjölskyldunni og ekki síst skósveinunum, sem að þessu sinni öðlast sérstaka ofurkrafta og mála bæinn rauðan.
Önnur ný á lista
Þess má geta að lokum að önnur glæný kvikmynd á listanum er Kinds of Kindness, sem er nýjasta kvikmyndin frá leikstjóranum virta Yorgos Lanthimos (The Favourite, Poor Things) en hún lenti í sjöunda sæti. Með aðalhlutverkin í þeirri mynd fara Emma Stone, Margret Qualley, Jesse Plemons, Hong Chau og Willem Dafoe.
Þríleikur sem fjallar í fyrsta lagi um mann sem hefur ekkert val og reynir að ná stjórn á eigin lífi; í öðru lagi fjallar myndin um lögreglumann sem er í uppnámi eftir að eiginkonan sem týndist á hafi úti er snúin aftur og er mjög ólík sjálfri sér; og í þriðja lagi segir ...
Jesse Plemons vann Gullpálmann sem besti leikari á kvikmyndahátíðinni í Cannes og leikstjórinn tilnefndur til sömu verðlauna.
Sjá má aðsóknarlista helgarinnar í heild sinni hér að neðan.