Skráir sig í uppistandskeppni í nýrri íslenskri gamanmynd

Glæný íslensk gamanmynd, Mentor, verður frumsýnd 24. júní nk. í Smárabíói, Laugarásbíói og Borgarbíó Akureyri.

Beta og mentorinn.

Myndin segir frá unglingsstúlkunni Betu, leikin af Sonju Valdín, sem skráir sig í uppistandskeppni þrátt fyrir að hafa aldrei stigið á svið. Hún biður grínistann Húgó, leikinn af Þórhalli Þórhallssyni, sem vann sömu keppni 10 árum áður, um aðstoð. Í kjölfarið veikist Húgó af fortíðarþrá, á meðan Beta reynir að sigrast á óöryggi sínu.

Í tilkynningu frá Senu segir leikstjóri myndarinnar, Sigurður Anton Friðþjófsson ( Snjór og Salóme ) að hann hafi langað að gera kvikmynd um uppistand í mörg ár en hafi aldrei fundið nógu áhugaverðan vinkil. „Síðan kynntist ég bæði Þórhalli og Sonju og þá datt mér í hug þessi saga um tvær kynslóðir sem mætast. Eftir að hafa gert tvær ‘gamandrama’ myndir langaði mig líka að gera mynd sem var meira straight up grín-mynd. Smá saman dýptist hún aðeins, en kjarninn um að hafa hana létta og brandara-mikla hélst“.

Handrit og leikstjórn: Sigurður Anton Friðþjófsson
Leikarar: Sonja Valdín, Þórhallur Þórhallsson, Anna Hafþórsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Gunnar Helgason, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, og Álfrún Helga Örnólfsdóttir

Sjáðu plakat og stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: