Skrímslastikla frá Blomkamp, Weaver er hermaður

Eftir að District 9 leikstjórinn Neill Blomkamp hætti við að gera Alien 5, byrjuðu menn að velta fyrir sér hvaða verkefni væru næst á dagskrá hjá honum. Fyrir nokkrum vikum síðan byrjaði hann að birta fregnir af nýjasta verkefninu sem hann kallar Oats Studio, en þar er um að ræða röð af tilraunakenndum stuttmyndum, sem birtar verða á YouTube rás fyrirtækisins, sem og á VOD streymisþjónustum.

Enn er ekki vitað hvenær fyrsta Oats myndin mun líta dagsins ljós, en Blomkamp hefur nú birt splunkunýja stiklu fyrir Oats Studio: Volume 1, eins og myndin heitir ( eins og er ) , en þarna er um að ræða skrímslamynd.

Mögulegt er að myndin muni heita Rakka, en leikstjórinn notaði það nafn í nýlegu tísti, þegar hann birti fyrstu 15 sekúndna kitluna.

Ekkert hefur verið látið uppi um söguþráð, né heldur frumsýningardag, en Blomkamp hefur þó gefið smá upplýsingar um hvað hann ætlar sér með þessum myndum:

„Kannski getur volume 1 verið ókeypis. Sem þýðir að hægt verður að finna þrívíddarlíkön og fleira á #oatsstudio YouTube síðunni, og annað eins og hugmyndavinnu og hráefni í vinnslu myndarinnar, sem og tónlist og fleira.  Og fólk mun þá kannski greiða fyrir volume 2. Eða fara í bíó til að sjá mynd í fullri lengd sem gerð yrði eftir einni af þessum stuttmyndum.“

Í stiklunni sjáum við Sigourney Weaver í hlutverki hermanns, en eins og sagt hefur verið frá átti hún að leika í Alien 5, og það má segja að það sé smá Alien bragur á henni þarna í stiklunni.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og tíst þar fyrir neðan: