Sófaspíran rís!

Hvað er gott í sjónvarpinu um helgina? Við svörum því með nýjasta liðnum okkar, Sófaspírunni, þar sem við pennarnir veljum nokkrar ræmur sem meðmæli helgarinnar úr dagskrá helgarinnar ásamt öðrum sem auðvelt er að næla sér í.

Endilega skellið inn ykkar meðmælum í kommentakerfinu fyrir neðan, margt fer fram hjá okkur og þykir alltaf frábært að heyra í ykkur.

 

The Mist (2007)

Frank Darabont færir okkur eina bestu Stephen King myndina til þessa, en þetta er ekki fyrsta myndin sem hann byggir á bók eftir þann meistara. Hrollvekjandi yfirnáttúruleg karakterstúdía þar sem spilað er sífelt með væntingarnar þínar. Hreðjamikill endir og skúrkur sem maður elskar að hata, þessi mun ekki svíkja þig ef þú ert í stuði fyrir eitthvað þungt, drungalegt, og hægbrennandi.

Sýnd á Stöð 2 í kvöld kl. 22:40

 

Almost Famous (2000)

Yndislega persónulegt endurlit í þroskaskeið snillingsins Cameron Crowe þegar hann var ráðinn sem penni fyrir Rolling Stone tímaritið 18 ára gamall. Myndin gerist árið 1973 þegar sígilda rokkið var að klára tímabilið sem Crowe telur hið besta í sögu geirans og ástúðin í garð tónlistarinnar skín í gegn. Og að sjálfsögðu er lagavalið og notkun þess gargandi snilld. Sæt, fyndin, áhrifarík og skilur mikið eftir sig. Gefandi upplifun.

Sýnd á Skjá Einum í kvöld kl. 22:20

 

Börn Náttúrunnar (1991)

Eina kvikmynd okkar íslendinganna í fullri lengd sem hefur fengið óskarstilnefningu sem besta erlenda kvikmyndin, en flestir eru sammála um það að þetta er alveg einstök íslensk kvikmyndaperla. Hæg en skemmtileg, krúttleg og gullfalleg. Myndin fjallar um þungt og mannlegt málefni en skortir þó alls ekki húmorinn. Undirbúið ykkur fyrir mjög sérkennilegan endir á ferðalaginu.

Sýnd á Rúv á morgun kl. 21:25

In The Mouth of Madness (1994)

Jonni Smiður flakkar um víddir, hugaróra, og hrylling í stíl við hinn sígilda H. P. Lovecraft þó ekki alveg jafn drungalegur. Nóg til að elska ef þú ert aðdáandi hryllingsmynda og ég get bókað að þú eigir eftir að verða skemmtilega ringlaður/ringluð eftir þennan þægilega volga graut.

 


Cool as Ice (1991)

Æðislega hallærisleg og misheppnuð endursögn af Rebel Without a Cause með rapparanum Vanilla Ice í aðalhlutverki. Hégómafull, tónlega séð algjör angist, og nýjar flíkur úr Dr. Seuss-lega fataskáp rapparans í hverri senu. Margt til að elska við þessa þvælu en fátt toppar yndislega kjánalega kynlífsatriðið þar sem nafnagift Vanilla Ice spilar spes hlutverk.