Söguleg endurnýjun Law & Order SVU þáttanna

Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur gert samning um gerð 21. þáttaraðarinnar af sjónvarpsþáttunum Law & Order: Special Victims Unit. Þessi pöntun þýðir að þættirnir eru orðnir lífseigasta leikna sería í sjónvarpi sem sýnd er á besta tíma, í sögunni. Þættirnir slá þar með út Law & Order, sem gekk í 20 ár, frá 1990 til 2010, og Gunsmoke, sem sýndir voru samfleytt frá 1955 til 1975. Ennfremur þá er persónan sem aðalleikkonan, Mariska Hargitay, leikur, Lieutenant Benson, nú langlífasta persóna í leiknum þáttum á besta tíma í sjónvarpi. Hargitay hefur unnið bæði Emmy og Golden Globe verðlaun fyrir frammistöðu sína í þáttunum.

Áður átti Kelsey Grammer metið yfir langlífustu persónu í sjónvarpi, en það var Doctor Frasier, sem var persóna bæði í Cheers, eða Staupasteini, og Fraisier þáttunum, en þeir voru einnig samfleytt í 20 ár í sjónvarpi.

Grammer lék persónuna í 123 þáttum af Cheers og 264 þáttum af Frasier. Núna hefur Hargitay leikið í 458 þáttum af Law & Order: Special Victims Unit, og sú tala mun hækka enn næsta vetur.

Af þessu tilefni sendi Hargitay frá sér yfirlýsingu: „Ég er gríðarlega stolt af því að vera hluti af þessari brautryðjenda þáttaröð, og lít með auðmýkt til þeirrar staðreyndar að ég er að skapa sjónvarpssöguna á hverjum degi. Þetta langlífi og vinsældir SVU er sönnun á gæðum efnisins, og getu þátttanna bæði til að ná til fólks, og um nauðsyn þess. Við höfum sagt mikilvægar sögur í 20 ár, og höldum því áfram“.

Nokkrar breytingar urðu á leikhóp þáttanna Law & Order í gegnum árin, og allir upphaflegu aðalleikararnir voru hættir eftir 10 árið. Í Law & Order: SVU, þá hefur Mariska Hargitay verið aðalleikkonan allt frá fyrsta prufuþættinum, og félagi hennar Ice-T, hefur verið með henni í þáttunum í 19 ár.

Um 7,6 milljón áhorfendur hafa horft á þættina að meðaltali í Bandaríkjunum nú í vetur. 22 nýir þættir verða sýndir næsta vetur frá og með september nk. og fram í maí.