„Ég er pan, ef þú endilega vilt vita. Þá er þetta spurning um hjarta en ekki parta“
Stikla kvikmyndarinnar Ljósvíkingar eftir Snævar Sölvason (Albatross, Eden) er komin út, en myndin fjallar um æskuvinina Hjalta og Björn sem reka fiskveitingastað í heimabæ sínum yfir sumartímann. Þegar þeir fá óvænt tækifæri til að hafa veitingastaðinn opinn árið um kring tilkynnir Björn að hún sé trans kona og muni framvegis heita Birna. Þessar breytingar reyna á vináttuna og þurfa þau bæði að horfast í augu við lífið á nýjan hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skiptir.
Með aðalhlutverk fara Björn Jörundur Friðbjörnsson, Arna Magnea Danks, Sólveig Arnarsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Í öðrum helstu hlutverkum eru Helgi Björnsson, Hjálmar Örn Jóhannsson, Vigdís Hafliðadóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Pálmi Gestsson og Gunnar Jónsson.
Myndin er væntanleg í bíó 6. september.