Stærri hópur, fleiri byssur, meiri húmor

Sviti, sprengingar, skallar, bringuhár, sprengingar, talgallar, one-linerar, Old Spice og gamlir, massaðir menn að grínast hver í öðrum. Annaðhvort tekur maður þátt eða ekki. Svo einfalt er það. Ef goðsagnarkenndar bíósamkomur eru til umræðu þá er The Expendables-tvennan nokkurn veginn eins og The Avengers fyrir menningarlega hefta karlmenn með litla þekkingu á vönduðum efnistökum. Svona myndir sem ganga minna út á metnað og meira út á það að selja plaköt til að hasarfíklar með fortíðarþrá tapi ekki holdrisinu. Svona myndir sem gæjarnir sem einoka bekkpressurnar í ræktinni kalla „bestu bíómyndir í heimi.“ Svona myndir sem eru svo öfgafullar í karlmennsku og testósterónbaði að þær lofa næstum því að það vaxi aukasett af hreðjum á hverjum áhorfanda eftirá, en gerist það síðan aldrei. Ég taldi hins vegar fjögur ný bringuhár eftir að hafa horft á þessa nýjustu.

Það er auðvelt að hafa gaman af þessum myndum en ég á sjálfur erfitt með að elska þær. Það er vegna þess að það er takmarkað hversu lengi er hægt að hafa gaman af endurtekningum þegar manni er afskaplega sama um alla og þær reyna svona hart að vera fyndnar með hégómafullum og stundum lúðalegum tilraunum. Eftir ákveðinn tíma verður maður orðinn heldur þreyttur á „sjáðu-hvern-við-fengum!“ gimmick-inu og á endanum vill maður bara fyrst og fremst góða hasarmynd sem finnur eitthvað að gera fyrir alla. Ekki bíómynd sem er sett saman eins og skemmtiatriði og stýrist alfarið af nostalgíublæti áhorfandans. Á akkúrat þessu leveli er Expendables 2 slakari en fyrri myndin, þó hún sé yfir heildina álíka góð. Að vísu er þetta mögulega einhver vitfirrtasta Hollywood-hasarmynd sem ég hef borið augum á síðustu árin. Handritið er drasl, söguþráðurinn er eins og einhver paródía, „persónusköpunin“ er algjört ofbeldi á sálina og samsetningin verður oft svo út úr kú að það nær engri átt. Þess vegna langar mig til að krossfesta sjálfan mig fyrir að hafa svona gaman af þessu.

Fyrri myndin var hrárri, hraðari og harðari en þessi er ef til vill ánægjulegri ef hún er fyrst og fremst meðtekin sem rugluð skemmtun. Hún sver sig snilldarlega í ætt við þær yfirdrifnu ’80s hasarmyndir sem maður getur ekki annað en hlegið af í dag. Hún tekur sig heldur ekki eins alvarlega og fyrri myndin og skorar fullt af stigum fyrir að tapa sér í eintómri vitleysu með bros á vör í seinni hlutanum. Mér finnst reyndar tilgangslaust að gefa mynd eins og þessari stjörnugjöf því hún þjónar einfalda markhópi sínum fullkomlega (svo lengi sem þeir geri sér ekki kröfur um að hver einasti leikari fái fullnægjandi skjátíma) án þess að bæta einhverju merkilegu við listform kvikmynda. Hún hrækir á slík markmið. Leyfum henni það bara.

Stærra þýðir ekki endilega alltaf betra en stærra partí með meira rugli og betri tónlist er ekki svo slæmur valkostur í samanburði við smærri útgáfuna. Byssurnar eru fleiri, dauðsföllin eru fleiri, leikararnir fleiri og áhættuatriðin villtari. Opnunarsenurnar sér í lagi veita manni hér um bil allt sem fyrri myndin bauð upp á (mínus hristingurinn), og þá á 10 mínútum! Allt frá klikkuðum bombum til flugvélahasars og slagsmála. Ef þú ert ekki farinn að njóta þín þegar titillinn kemur loksins upp, þá geturðu alveg eins bara sparað þér tímann og gefið skít í rest.

Sly Stallone tók rétta ákvörðun þegar hann ákvað að leikstýra ekki framhaldinu. Stíllinn hans í fyrri myndinni gekk ekki alltaf upp og þegar maður sér hvernig Simon West stillir upp kamerunni og meðhöndlar hasarinn, þá er ljóst að hann veit miklu betur en Stallone hvernig skal halda sér í takt við fortíðina. Það munar einnig miklu að ofbeldið gerist allt saman í dagsbirtu að þessu sinni. West hefur unnið heimavinnu sína óaðfinnanlega, sem mér finnst merkilegt að segja útaf því ég hef ekkert álit haft á manninum hingað til (og bara svo það komi fram: ég þoli ekki Con Air!). Hasarinn er kaotískur, eins og hann á að vera en það eina sem dregur mig úr honum er notkunin á slöppum tölvubrellum, sem eru ekki alveg partur af old school fílingnum sem sóst er eftir. Maður rennur samt með fjörinu, ef ekki bara vegna þess að garparnir á skjánum eru að skemmta sér eins og kóngar. Kannski fullmikið sum staðar. Gamalt fólk þarf auðvitað að geta skemmt sér líka, en „Spaugstofan með byssum“ var ekki alveg það sem ég átti von á.

Grínið getur stöku sinnum verið gott (Chuck Norris staðreyndin hitti t.d. beinustu leið í mark, sem og hér um bil allt sem sá maður gerði!) en stundum einum of… aulalegt. Mér finnst eins og sumum leikurunum (hæ, Ahnuld og Bruce) finnist nærvera þeirra og frasafíflagangur vera langtum fyndnari heldur en týpískum áhorfendum. Passað er samt upp á það að aðdáendur fái að heyra það sem þeir vilja (frá Ahnuld). Ég kunni samt betur við spaugið heldur en rólegu kaflanna og áherslurnar á söguþráðinn. Þegar myndin hættir að snúast um hasar eða samspil Expendable-teymisins deyr áhuginn ansi hratt. Það eru líka fleiri dauðir punktar heldur en ég hélt að væri leyfilegt í svona partíi. Trylltu opnunarsenurnar réttlæta seinni rólegheitin eitthvað smávegis og lokahasarinn bætir margt upp en stuðinu lýkur því miður aðeins of snemma. Fyrst allir kóngarnir eru þegar á sama staðnum hvort eð er, hví ekki teygja lopann aðeins meira?

Naglarnir sýna hvað í þeim býr eins og þeim er lagið. Ég get persónulega ekkert sett út á massamenn eins og Stallone, Jason Statham, Terry Crews og Dolph Lundgren því þeir gera nákvæmlega það sem þeir eru fæddir til að gera – og gera það fantavel. Hver hefur sinn eigin styrk og persónuleika sem betrumbætir hverja einustu senu. Statham finnst mér þó enn sá svalasti í öllu liðinu og hefur mér ekki enn tekist að finna nokkurn mann í heiminum sem elskar ekki Crews. Ef þú ert ósammála því þá hef ég lítið við þig að segja.

Yu Nam og Liam Hemsworth sjá um að sprauta smá estrógeni í myndina, sem gæti eitthvað pirrað dyggasta aðdáendahópinn, en þau láta fara vel um sig og sýna ekki minnstu merki um óöryggi. Jet Li eignar sér litla senu í byrjuninni en kveður síðan myndina/áhorfendur af engri sérstakri ástæðu. Eins skrítið og það er að segja það, þá eru þeir Bruce Willis og Ahnuld ferlega ótrúverðugir, en þeir eru hvort eð er ekki að gefa sig alla fram. Þeir hoppa bara inn til að breyta aukahlutverkum í töff brandara, sem að mínu mati verður meira þreytandi þegar maður sér hvað mennirnir reyna þvílíkt á sig til að kitla aðdáendur sína. Á endanum fór ég samt að venjast öllu kjaftæðinu með þeim og má vel vera að Ahnuld eigi (næst)bestu setningu myndarinnar, alveg í lokin.

Van Damme þótti mér samt vera frekar mikil sóun. Hann fær eitt flott lítið atriði og klikkaðan slag við Sly en sem illmenni gerir hann eiginlega ekkert annað en að þykjast vera svalur. Orðið ósannfærandi væri skref upp fyrir kauða og veltir maður fyrir sér hvort að Magnús Scheving hefði verið hressari og trúverðugri kostur í þetta sama hlutverk. Hann a.m.k. skemmtir manni með lélegum tilþrifum sem vondur karl. Eric Roberts reyndist eiga öflugri skúrkinn af myndunum tveimur. Hversu leim er það?

Maður veit annars alveg hvað maður fær úr svona sterasýningu ef væntingar eru rétt stilltar. Eins og kom áður fram þá skipta einkunnir engu máli þegar tilgangurinn er að taka ekki bara ruslið í sátt, heldur fagna því. Á yngri árum mínum voru myndir eins og Commando, Rambo II (og III), Cobra, Above the Law og alls konar steypur (sem ég þori varla að nefna) reglulega í spilun. The Expendables 2 kom mér í rétta gírinn og skothríðin hélt athygli minni svipað og þegar köttur eltir geislabendil. Ég er ekki stoltur af sjálfum mér fyrir að vita ekki betur og tæta þessi ósköp meira í sundur. Mynd eins og þessi á ekki góða einkunn skilið en blóðþorstinn, augljósa ánægjan á settinu og „fist-bump“ brómantíkin er einfaldlega alltof smitandi. Myndin er ekki eins klikkaðslega svöl og t.d. The Raid eða Safe, en hún dugar alveg.

Þú skalt heldur ekki dirfast að horfa á hana einsamall. Þetta er eitthvað fyrir allan vinahópinn. Edrú eða ekki.

Segjum sjö bjórglös af 10.