Ítalski folinn Sylvester Stallone, hefur ákveðið að ráðast í gerð fimmtu Rambo myndarinnar, og mun hann sjálfur gera hvoru tveggja í senn, leika og leikstýra. Síðasta Rambo mynd, sú fjórða í röðinni, var frumsýnd árið 2008 sællar minningar.
Nýja myndin mun fjalla um það þegar Rambo fer til Mexíkó og lætur þar mannræningja og eiturlyfjahyski finna til tevatnsins. Markmið sendifararinnar er að bjarga ungri stúlku sem rænt var nálægt landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.
Framleiðsla myndarinnar mun hefjast á vormánuðum, að því er segir í Variety kvikmyndablaðinu.
Stallone hefur áður gefið í skyn í viðtölum að Rambo 5 væri í pípunum, en Rambo 4 lagðist vel í bíóunnendur. 42 milljónir Bandaríkjadala komu í kassann í Bandaríkjunum og 113 milljónir utan Bandaríkjanna, enda skemmtu áhorfendur sér konunglega við að horfa á Rambo brytja niður bandítta við landamæri Burma.
Rambo kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1982 í myndinni First Blood og svo aftur árið 1985 í Rambo: First Blood Part II. Þriðja myndin, Rambo III kom svo á hvíta tjaldið árið 1988.
Stallone er skuggalega flottur.


