Star Wars Legó sagt vera rasískt

Einhverjum tyrkneskum leiðtogum er misboðið vegna kubbakassa frá Lego, með Star Wars Legói í. Þeir segja að Lego byggingin líkist frægri mosku.

Tyrkneska menningarráðið í Austurríki sagði í yfirlýsingu að Legokassi af höll Jabba úr Star Wars myndunum, sé rasísk, af því að svo virðist sem hún sé eftirlíking af Hagia Sophia ( sem áður var moska ) í Istanbúl, Jami al-Kabir moskunni í Beirút í Líbanon og bænaturni. Þar með viðheldur dótið og styrkir staðalmyndir um mið-austurlönd, að því er segir í austurríska dagblaðinu Austrian Times.

Í yfirlýsingunni er málsókn hótað ef Lego innkallar ekki dótið úr búðum.

„Hryðjuverkamanninum Jabba the Hutt finnst gott að reykja vatnspípu og láta drepa óvini sína,“ segir í yfirlýsingunni, og sagt er frá í breska dagblaðinu Telegraph. Í yfirlýsingunni þá er því einnig haldið fram að persónan sé illileg og vinni illvirki, eins og að stunda þrælahald og fremja morð.

Lego neitar ásökununum. „Legó Star Wars dótið Höll Jabba á sér enga fyrirmynd í raunverulegum byggingum, fólki eða þeim moskum sem nefndar eru,“ sagði Katharine Sasse, talsmaður Lego, í samtali við Telegraph.

Þetta er ekki í fysta sinn sem Star Wars er ásakað um rasisma. Einhverjir sögðu að Star Wars: The Phantom Menace væri rasísk af því að sumir óþokkarnir í myndinni styrktu og viðhéldu staðalmyndum um asíubúa.

Jabba the Hutt, fyrir þá sem ekki vita það, er einn af óþokkunum í Star Wars myndunum. Hann tók Han Solo til fanga og frysti hann, reyndi að drepa Loga geimgengil, og hélt Leiu prinsessu fanginni sem ambátt sinni um tíma. Logi og lið hans frelsuðu að lokum Han Solo og Leiu prinsessu úr prísundinni, og drápu Jabba og skósveina hans.

Lego hefur ekki farið varhluta af rasískum ásökunum í fortíðinni heldur. Listamaðurinn Chris McVeigh sagði árið 2010 að nánast öll andlit hörundsdökkra Legokalla væru með ygglibrún, eins og sagt er frá í The Wired. Í greininni segir að Lego dótasett sem byggð eru á Hollywood kvikmyndum undirstriki rasismann sem er við lýði í ráðningum leikara í Hollywood myndum.

Sjáið Höll Jabba hér fyrir neðan:

Stikk: