Daisy Ridley er ein umtalaðasta leikkonan í Hollywood um þessar mundir eftir frábæra frammistöðu í lykilhlutverki í Star Wars: The Force Awakens, þar sem hún leikur Rey.
Þeir sem ekki hafa þolinmæði til að bíða til 2017, eftir að sjá hana í næsta kafla af Star Wars sögunni, Kafla VIII, geta hlustað á leikkonuna í hinni sígildu teiknimynd eftir Isao Takahata; Only Yesterday.
Ridley talar þar fyrir aðalpersónuna, en myndin er nú loksins að koma í bíó í Bandaríkjunum, 25 árum eftir að hún sló í gegn í Japan.
Myndin gerist snemma á níunda áratug síðustu aldar og segir frá Taeko, einhleypri 27 ára gamalli konu sem hefur búið alla sína hunds- og kattartíð í Tókíó. Hún fer nú í ferðalag til að heimsækja fjölskyldu sína og lítur aftur til baka á fortíð sína til að meta hvort hún hafi verið trú þeirri stúlku sem hún ætlaði sér að verða.
Myndin verður frumsýnd í bíóhúsum í Bandaríkjunum í almennum sýningum í febrúar nk.
Hlustaðu á Daisy í stiklunni hér fyrir neðan, en Dev Patel úr Slumdog Millionaire, fer með hitt aðalhlutverkið í myndinni: