Statham passar krakka

Stikla var að detta á netið fyrir Statham mynd sem ég mundi ekki eftir að væri til, Safe. Þið verðið að fyrirgefa mér afglöpin, en Statham bara stoppar ekki og myndirnar hans eiga það til að renna saman í eina. Þær eru allar alveg eins einhvernvegin. Bara árið 2011 hafa þegar komið út hasarmyndirnar The Mechanic (Statham er leigumorðingi), Killer Elite (fyrrverandi lögga) og Blitz (lögga í London) er væntanleg í desmber. Núna í október átti síðan að koma út enn ein Statham myndin, Safe, en henni var sem betur fer frestað þar til í mars 2012, en þar leikur Statham löggu í New York sem tekur að sér að vernda 12 ára gamla stúlku sem er stærðfræðisnillingur fyrir fullt af rússneskum mafíósum sem vilja henni allt illt.

Statham er semsagt ekki (ennþá allavega) eins og fyrirsögnin gæti hafa gefið til kynna, að fylgja í spor harðhausa eins og Vin Diesel (The Pacifier), Dwayne Johnson (the Tooth Fairy) eða Jackie Chan (The Spy Next Door) og reyna að bæta fjölskyldumyndum í katalóginn, heldur er þetta hefðbundin Statham hasarrulla, og í þetta skiptið þarf hann að passa krakka í leiðnni. Þetta er þó ekki beint fersk nálgun, og minnir td. strax á Bruce Willis myndina Mercury Rising þar sem hann þurfti einmitt að vernda einhverfan strák út af einhverjum talnarunum. Hér er allavega stiklan.

Hvað finnst fólki annars, er þetta ekki að verða komið full mikið af Statham í bili? Eða fáum við aldrei nóg af Statham?