Stríðið heldur áfram

Rithöfundurinn Warren Adler hefur skrifað framhald af bókinni The War of the Roses, og nú er kvikmyndagerð bókarinnar komin í gang. Mynd var gerð eftir fyrstu bók hans, The War of the Roses, sem frumsýnd var árið 1989 og var með þeim Michael Douglas og Kathleen Turner í aðalhlutverkum.

52146120

Í hinni svörtu gamanmynd The War of the Roses áttu þau Oliver og Barbara Rose í harðvítugum hjúskapardeilum, en í nýju bókinni The War of the Roses: The Children, eru sonur þeirra og dóttir, þau Josh og Evie, í brennidepli, og eru, líkt og foreldrarnir, ekki í góðum hjónaböndum. Josh er rað-framhjáhaldari og Eva er lauslátt matargat, og bæði eru þau sködduð á sálinni eftir skilnað foreldranna.

Enn er leitað að handritshöfundi fyrir myndina. Óvíst er á þessari stundu hvort að Danny DeVito, sem leikstýrði fyrri myndinni, mæti til leiks á ný, né heldur er vitað hvort að aðalleikarar fyrri myndarinnar komi fram í þeirri nýju.