Sveppi enn á toppnum, Simbi sigrar BNA

Þriðja árið í röð kemur Sveppi með nýja bíómynd og rústar allri samkeppni. Barnamyndin Algjör Sveppi og töfraskápurinn tekur toppsæti vinsældarlistans aðra helgina í röð og er aðsóknarfjöldi kominn núna upp í tæplega 19 þúsund manns. Glæpadramanu Drive gekk einnig ótrúlega vel í öðru sætinu en í kringum 5 þúsund íslendingar kíktu á þessa marglofuðu mynd. Stelpumyndin I Don’t Know How She Does it fór í þriðja sætið en slagsmáladramað Warrior fauk alla leið niður í 8. sæti (með rétt svo 700 manna aðsókn), sem þykir mjög leiðinlegt miðað við hversu góða dóma hún hefur einnig fengið.

Í bandaríkjunum voru frumsýndar fjórar nýjar myndir um helgina (tvær af þeim voru einnig Drive og I Don’t Know…) en aðeins ein sigraði þær allar og var það engin önnur en klassíkin The Lion King, sem Disney gaf út aftur í bíó (nú í 3-D). Teiknimyndin tók hátt í $30 milljónir yfir þessa helgi, og gæti það leitt til þess að stúdíóið gefi oftar út gamlar myndir svo nýjar kynslóðir geti séð þær í bíó.

Á föstudaginn geta íslendingar séð Konung ljónanna í bíó, en aðeins með íslensku tali. Því miður.