Sviptur rödd og syni í Silent Night

Leikstjórinn John Woo kaus að láta leikarana ekki tala saman í hasartryllinum Silent Night sem komin er í bíó á Íslandi. Þess í stað vildi hann leggja alla áherslu á sjónræna þáttinn og hljóðbrellur til að heilla áhorfendur.

Woo, sem þekktur er sem frumkvöðull í spennumyndageiranum, bæði í Hollywood og í Hong Kong, með myndum eins og Mission: Impossible 2, sagði í samtali við Reuters fréttastofuna að minna mas í kvikmyndum skapaði tækifæri fyrir leikarana að tengjast áhorfendum í gegnum samskipti án orða. „Það er einnig góð leið til að leyfa leikurunum að skila alvöru frammistöðu og að láta áhorfendur horfa meira á andlit þeirra og hendur,“ bætti hann við.

Silent Night (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.3
Rotten tomatoes einkunn 58%

Ósköp venjulegur faðir skorar miskunnarlaust glæpagengi úr undirheimunum á hólm til að hefna dauða ungs sonar síns á Aðfangadagskvöld....

Silent Night fjallar um ósköp venjulegan fjölskylduföður að nafni Brian Godluck, sem sviptur er bæði rödd sinni og syni eftir að hann lendir mitt í byssubardaga milli glæpagengja.

Godluck hefur aldrei hlotið formlega þjálfun í átökum en er skyndilega dottinn inn í harðan ofbeldisheim og bílaeltingarleiki í þeim tilgangi að hefna dauða sonar síns.

Sænski leikarinn Joel Kinnaman fer með hlutverk Godluck. Talað mál í myndinni kemur eingöngu úr útvarpi eða úr talstöð lögreglunnar.

Bara augu og svipbrigði

„Eina leiðin fyrir mig að segja söguna er með augunum og svipbrigðum í andlitinu,“ segir Kinnaman, sem þekktur er fyrir leik í myndum eins og The Suicide Squad og For All Mankind.

„Öllum stundum þurfti ég að leggja meira á mig til að vera tilfinningalega meira á staðnum,“ bætti hann við.

Hluti af því að tengjast persónu Godluck var að reyna að gleyma ýmissi bardagatækni sem hann hafði lært í gegnum Hollywood feril sinn. „Við vildum ekki að slagsmálin litu út eins og þau væru útpæld og hönnuð, eins og oft er í kvikmyndum,“ sagði hann.

Hann segir að í reynd hafi Woo reynt að lengja tökurnar á atriðunum til að leikarar gætu gefið sér tíma til að spinna til að skapa þá upplifun að um alvöru bardaga væri að ræða.