Svona lítur dagskráin út á RIFF í ár

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í átjánda sinn þann 30. september og stendur til 10. október. Lögð er á hátíðinni sérstök áhersla á framsæknar og fjölbreyttar kvikmyndir. Markmið RIFF er að standa fyrir nýsköpun í kvikmyndaiðnaði, samfélagslegri og menningarlegri samræðu og síðast en ekki síst frekari uppbyggingu á alþjóðlegu tengslaneti.

Síðasta mynd kvikmyndaleikstjórans Árna Ólafs Ásgeirssonar sem lést fyrr á árinu, verður opnunarmynd Icelandic Panorama á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RiFF. Kvikmyndin sem um ræðir heitir Wolka og er fyrsta leikna íslenska myndin sem gefur nána innsýn í pólskt samfélag á Íslandi. Kvikmyndin, sem er íslenskt-pólskt samstarfsverkefni, er á pólsku og eru flestir leikarar pólskir. Margir Íslendingar koma að gerð myndarinnar; tónlist, leikmynd og framleiðsla eru í höndum Íslendinga. Film Produkcja og Saga film framleiða myndina. Vestmannaeyjar eru aðalsögusvið myndarinnar..

Þess ber að geta að hin þekkta danska leikkona, Trine Dyrholm, verður heiðursgestur RIFF þetta árið og viðstödd frumsýningu á Margréti fyrstu (e. Margrete den første).

Hér má sjá dagskrá RIFF í heild sinni þetta árið.