Tarantino finnur til með Affleck

Quentin Tarantino telur að Ben Affleck hefði átt að fá Óskarstilnefningu sem besti leikstjórinn fyrir mynd sína Argo.

Hvorki Tarantino né Affleck hlutu náð fyrir augum Óskarsakademíunnar sem bestu leikstjórar þrátt fyrir að bæði Django Unchained og Argo hefðu verið tilnefndar sem besta myndin.

„Það hefði verið gaman að fá tilnefningu en þegar allt kemur til alls finn ég til með Ben Affleck. Hann átti það virkilega skilið og ég held að við höfum öll reiknað með því að hann yrði tilnefndur, þannig að ég finn virkilega til með honum,“ sagði Tarantino við BANG Showbiz þegar Django Unchained var frumsýnd  í Empire-kvikmyndahúsinu á Leicester Square í London.

Leikstjórinn er ánægður með tilnefninguna fyrir bestu myndina en býst ekki við því að vinna. „Það er indælt að vera boðið í partíið. Þetta hefur verið góð vika. Fimm Óskarstilnefningar og fimm BAFTA tilnefningar. Ég held hún verði ekki valin besta myndin  en ef hún fær verðlaunin tek ég við þeim fengins hendi.“