Theron í víkingadrama

Charlize Theron ætlar að leika aðalhlutverkið í nýjum prufuþætti fyrir ABC-sjónvarpsstöðina sem kallast The Clan. Hún tekur einnig þátt í framleiðslunni.

Þessi dramatíska þáttaröð, ef hún verður að veruleika, gerist í Skotlandi á miðöldum þar sem víkingar nema land og valda usla, samkvæmt frétt Hollywood Reporter. Leikstjóri verður Terry George, sem er þekktastur fyrir Hotel Rwanda.

Ekki er langt síðan Theron lék í hinni íslensk-ættuðu Prometheus en hún sést næst á hvíta tjaldinu í Mad Max: Fury Road sem hefur margoft verið frestað í gegnum tíðina. Tökur á henni eru í gangi  í Namibíu og verður þetta fjórða Mad Max-myndin í röðinni.