Tökur á WOW hefjast brátt

Tökur á kvikmynd sem byggð verður á vinsælasta tölvuleik í heimi, World of Warcraft, hefjast snemma á næsta ári í Vancouver í Kanada, samkvæmt tilkynningu framleiðanda myndarinnar, Legendary Pictures, á Twitter.

Margir bíða spenntir eftir þessari mynd en leikstjóri hennar verður Duncan Jones. Ekkert hefur verið látið uppi um söguþráð myndarinnar, en búið er að ráða Charles Leavitt, sem skrifaði Seventh Son og In the Heart of the Sea, til að skrifa handritið. Sam Raimi, sem upphaflega átti að leikstýra, er á meðal framleiðenda.

wowWorld of Warcraft leikurinn kom fyrst út árið 1994 fyrir PC tölvur, en í leiknum taka spilarar alls staðar að úr heiminum þátt í epískum bardaga á milli The Horde ( flökkuþjóðarinnar ) og Alliance ( bandalagsins ), en sögusviðið í leiknum er blanda af vísindaskáldsögu, hrolli og ævintýrum.

Ekki er búið að tilkynna um neina leikara ennþá, en væntanlega verður ekki langt að bíða þar til fregnir fara að berast af ráðningum.

Stefnt er á að myndin komi í bíó árið 2015.