Tyson fer á dauðadeild

Hnefaleikameistarinn Mike Tyson mun þreyta frumraun sína sem leikari í sjónvarpsþætti þegar hann kemur fram í gestahlutverki í NBC þáttunum Law & Order: SVU. Eins og kunnugt er lék Tyson sjálfan sig í bíómyndunum The Hangover 1 og 2, en í þetta sinn mun hann leika morðingja.

Um er að ræða hlutverk morðingjans Reggie Rhodes sem er vistaður á dauðadeild í fangelsi. Rhodes átti slæma æsku og varð snemma mjög ofbeldisfullur. Mál Rhodes nær athygli rannsóknarlögreglukonunnar Benson, sem leikin er af Mariska Hargitay, og verjandans Bayard Ellis, sem leikinn er af Andre Braugher, í rannsókn SVU ( Special Victims Unit ) á málinu.

Eru ekki allir spenntir að sjá Tyson aftur í leikhlutverki!