Umfjöllun: The Hunger Games: Catching Fire (2013)

Catching Fire fjallar um Katniss Everdeen sem er núna flutt í betra hverfið í umdæmi 12.
President Snow  hefur ekki fyrirgefið Katniss fyrir að hafa verið með uppreisn í fyrri myndinni og til að ná sér niðri á henni ákveður hann að halda keppni með öllum fyrrverandi vinningshöfum úr öllum umdæmum.

HungerGames1

Ég er örugglega ekki í rétta markhópnum fyrir þessa mynd, en var samt frekar spenntur fyrir að sjá hana.

Mér fannst fyrri myndin nokkuð skemmtileg, þó að bókin hafi verið skemmtilegri eins og oft vill verða. Myndin byrjar hægt og það gerist voðalega lítið í fyrri hlutanum, en það er líka tekið hressilega á því eftir það. Catching Fire er eiginlega Hunger Games í stærri umgjörð og með meira fjármagn. Þetta er flott ævintýramynd og fyrir aðdáendur The Hunger Games er þetta góð mynd.

Leikurinn hjá Jennifer Lawrence (The Hunger Games, Winter’s Bone) er góður og sannfærandi. Einnig hef ég alltaf gaman af Woody Harrelson (Natural Born Killers, Zombieland), Lenny Kravitz er flottur sem fatahönnuðurinn Cinna , Philip Seymour Hoffman (Capote, The Big Lebowski) kemur inn í þessari mynd sem Plutarch Heavensbee sem er hinn nýi „Head Gamemaker“ og svo Donald Sutherland (The Eagle Has Landed, Outbreak) er flottur sem President Snow. Josh Hutcherson (The Hunger Games, Red Dawn (2012)) sem leikur Peeta Mellark er ég eitthvað að láta pirra mig, ætli það sé ekki bara týpan sem hann leikur. Hann er vinurinn sem hefur verið settur í „Friendzone“ og góði strákurinn sem vill öllum vel. Og svo er það Jena Malone (Sucker Punch, Donnie Darko) sem tekur að sér hlutverk Johanna Mason sem kemur sterk inn og heillaði mig mjög sem karakter.

Francis Lawrence (I Am Legend, Constantine) leikstýrir myndinni, en hann hefur verið mikið í að leikstýra tónlistarmyndböndum með til dæmis Jennifer Lopez, Britney Spears og Green Day.

HungerGames2

Myndin er bönnuð innan 12 ára og því er ég sammála.

Það eru nokkur bregðuatriði, smá blóð og brunablöðrur.

Tónlistin í myndinni er alveg ágæt, en þar má heyra tónlist með „Of Monsters And Men„, „Imagine Dragons„, „The Lumineers“ og „Coldplay“ til að nefna einhverja flytjendur.

Í þremur orðum: Spennandi (á köflum), langdregin og flott.

Myndin er núna á TOP 250 á IMDB í sæti 220 með 75.000+ atkvæði. Ég efast um að það endist lengi, en það er aldrei að vita.

Ég gef The Hunger Games: Catching Fire 7/10