Uppáhaldsmyndir Þorsteins árið 2011

Í tilefni áramótanna ætla ég að birta smá lista yfir þær kvikmyndir sem ég sá árið 2011, og hélt sérstaklega upp á. Nokkur atriði sem þarf að hafa í huga.

1) Listinn er ekki yfir bestu myndir ársins, heldur þær sem ég hélt upp á. Það eru örugglega ekki sömu myndir og þú hélst upp á, til þess er leikurinn gerður.

2) Að sjálfsögðu sá ég ekki nema brot af þeim myndum sem út komu á árinu.
3) Ég á eftir að sjá mikið af þeim myndum sem aðrir telja bestar á árinu, bæði þær sem ekki eru komnar út hér á landi (The Artist, Hugo, Shame, The Descendants) og sumar sem eru það (Warrior, Melancholia, Tree of Life, Moneyball). Þannig að eftir árið 2012 gæti ég örugglega gert miklu heildstæðari lista yfir bestu myndir ársins 2011. En ekki þýðir að fást um það, nú er árið liðið, ég sá bara ákveðnar myndir, og þessar hélt ég upp á af þeim.


10. Tropa de Elite 2 – O Inimigo Agora É Outro (Elite Squad 2: The Enemy Within)


Var í vafa hvort ég ætti að fara á þessa yfir höfuð því hafði ekki séð fyrri myndina, en lét tilleiðast. Og sá ekki eftir því. Ég fullyrði að hér sé á ferðinni ein besta hasarmynd ársins. Þetta er ekki vegna því að atriðin séu rosalega yfirdrifin, áhættuleikur og tæknibrellur eru vissulega í lagi en ekki það sem lætur myndina skara fram úr. Heldur er það sú brella sem ótal Hollywood myndum mistekst ár hvert, að gefa hasaratriðunum eitthvað vægi. Hér fær maður samúð með persónunum, aðstæðum, málstað og gjörðum þeirra. Það bætir áhrifin að finna hver raunverulegt umhverfi myndarinnar er, en aðstæður í fátækrahverfunum kringum Rio eru miklu raunverulegri í þessari mynd heldur en í t.d. Fast Five, þar sem hér koma þau söguþræðinum beint við og eru ekki bara höfð til skrauts.

9. Hævnen (In a Better World)

Vann óskarsverðlaun sem besta erlenda mynd á síðasta ári, en var ekki tekin til sýninga hér fyrr en á vormánuðum 2011. Myndin er eftir Susanne Bier, sem ég þekkti ekki vel til, en er klárlega leikstjóri sem ég ætla að reyna að sjá meira eftir. Myndin fjallar um tvo drengi, annan nýfluttan aftur til Danmerkur með föður sýnum eftir að hafa misst móður sýna úr krabbameini. Hinn er lagður í einelti í skólanum, þeir verða vinir. Faðir þess síðarnefnda er læknir sem sinnir hjálparstarfi í Afríku og fléttast sú saga saman við sögu drengjanna.

Þetta hljómar kannski fyrir mörgum sem óspennandi melódrama, og ég viðurkenni að ég var ekkert sá spenntasti þegar gengið var inn í salinn. En frásögnin er svo raunveruleg og grípandi. Leikararnir, þar með talið þeir 12 ára, standa sig gríðarlega vel, þema myndarinnar, hefnd, réttlæti, hamingja, togast á og úr verður klassa kvikmynd. Þung að horfa á, en þess virði.


8. Apflickorna (She Monkeys)

Þessa skrýtnu sænsku mynd sá ég á RIFF án þess að vita baun um hana. Á RIFF er markmiðið bara að fara á eins margar myndir og maður getur (þ.e.a.s. ef maður hefur hátíðarpassa). Það gerir maður fyrir þau tilfelli þegar maður uppgötvar gullmola, eins og ég gerði í þetta skiptið. Myndin fjallar um Emmu, stelpu sem æfir “hestafimleika” – íþrótt þar sem gerðar eru æfingar á hestbaki. Í byrjun myndar er hún að koma inn í nýjan hóp, og lendir fljótlega í samkeppni við eina stelpuna – og á milli þeirra myndast sérkennilegt vinasamband sem leiðir hana á óvæntar slóðir. Þá er litla systir aðalpersónunnar líka stór persóna, hún er ástfangin af frænda sínum sem passar hana stundum, og vill ekkert heitar en að eiga flott bikiní til að fara í sund. Söguþræðirnir þróast í óvæntar og allt að því hættulegar áttir. Ég skemmti mér allavega konunglega.


7. The Adventures of Tintin

Ég var ekki viss með þessa mynd. Nöfn Spielberg og Jackson buðu náttúrulega upp á nördafullnægingu, (höfðu reyndar hvorugur gert neitt að viti í svolítinn tíma), en ég var ekki seldur á motion-capture tækninni. Hún er fullkomin fyrir hlutverk eins og Gollum, eða King Kong, en að gera heila kvikmynd með venjulegu fólki í aðalhlutverki með tækninni hafði ekki heppnast vel áður (Beowulf).

En myndin var yndisleg! Nýtti kosti þess að vera leikin, en leit samt út eins og teiknimynd – sem gerði það að verkum að maður gat alveg keypt persónurnar sem manneskjur – í heimi Hergés. Svo ekki sé minnst á að sagan var stórskemmtileg, sýndi grunnefninu virðingu en byggði eitthvað nýtt úr því. Það besta var að eftir áhorfið óskaði ég þess að vera meiri Tinnanörd en ég var.

Af hverju fer hún ekki hærra á lista? Það vantaði eitthvað upp á. Mér fannst of mikið gert úr sumum hasaratriðum, byssubardagarnir pössuðu ekki alveg við anda myndarinnar. Það hjómar kannski asnalegt að segja það, en hluta af mér fannst myndin líka of fullorðinsleg! Bjóst við aðeins minni spennu og aðeins meira gamani. Tinni er barnaefni! Ég hefði viljað sjá myndina með íslensku tali, með vel þýddum og staðfærðum gullmolum á borð við “Myglaðar marglyttur! Fari það í sjóðandi seyðfirskan sjávardreginn saltfisk!” En þetta er smátýningur, myndin var frábær.

6. Trolljegeren (Troll Hunter)

Önnur frá Riff, frá Noregi í þetta skiptið. Fór nú ekki blint á hana, enda hefur hún fengið talsvert umtal, bæði gott og slæmt. Ég var ekki alveg viss um að ég myndi fíla hana, hugmyndin um „found-footage“ mynd (í stíl við Cloverfield) sem uppljóstaði samsæri Norsku ríkisstjórnarinnar um að fela tilvist trölla fyrir umheiminum hljómaði einum of kjánaleg. Og hún var það – en það skipti ekki máli! Sagan var skemmtilega klikkuð, persónurnar góðar og tröllahönnunin dásamleg. Hasaratriðin spennandi og brandararnir fyndnir. Hvað meira er hægt að biðja um.

5. Super 8

Eftirvæntingin meðal nördasamfélagsins var gríðarleg fyrir þessari mynd. J.J. Abrams er fyrir utan það að vera góður kvikmyndagerðarmaður meistari í því að byggja upp hæp án þess að sýna mikið innihald. Þegar myndin var svo loksins frumsýnd var meira um mild vonbrigði heldur en fagnaðarlæti, slíkar voru væntingar fólks. Ég var samt mjög hrifinn af myndinni! Söguþráðurinn er spennandi, persónurnar heillandi, og útlit tímabilsins æðislegt. Barnaleikararnir standa sig frábærlega, með Joel Courtney og Elle Fanning fremst í flokki. Hugmyndin er kannski ekki sú frumlegasta í heimi, en hún er allavega ekki byggð á einhverjum gömlum sjónvarpsþætti, leikfangi, spili eða morgunkorni. Og útfærslan er það skemmtileg og spennandi að myndin fékk pláss á þessum lista.

4. Hanna

Ung stúlka er alin upp í felum í óbyggðum Finnlands af föður sínum, þjálfuð til þess að verða drápsvél. 16 ára heldur hún í leiðangur til að takast á við fortíð sína og föður síns, en CIA hefur verið að leita að þeim frá barnæsku hennar. Hún er þjálfuð í fjölda tungumála, bardagalista og en hefur aldrei

Það hefði verið rosalega auðvelt að gera óeftirminnilega spennu- hasarmynd úr þessum efnivið. Ung stúlka í aðalhlutverki slíkrar myndar er svo sem ekki algengasta formúlan, en það sem skilur þessa mynd frá er eitthvað annað. Plottið skilar því sem það á að skila, en það sem gerir myndina frábæra er eiginleiki sem kalla má andrúmsloftið. Þar spilar inn í myndataka, leikframmistöður og tónlist sem sérstaklega skaraði fram úr. Myndin virðist fyrst vera frekar jarðbundin en þegar líður á áttar maður sig á því að myndin er eitt stórt ævintýri.

3. Rise of the Planet of the Apes

Óvæntasta mynd ársins, og uppáhalds stóra heimska sumarhasarmyndin mín í ár. Ég stillti væntingarnar fyrir bæði velgengni og gæði myndarinnar í verulegt hóf. Var í alvöru talað hægt að reyna að gera raunhæfa mynd um það að öpum takist að taka yfir hinn siðmenntaða vestræna heim? Handritinu tekst hið ótrúlega, að taka nokkuð kjánalega hugmynd að vísindaskáldsögu og spila hana á eins trúverðugan hátt og mögulegt er. Auk þess að vera velheppnuð drama-spenna sem stendur vel ein og óstudd, tekst myndinni á snjallan hátt að setja upp forsögu fyrir upprunalegu Plantet of the Apes myndina frá 1968, án þess að það verði byrði fyrir alla myndina. Þannig tel ég hana jafn vel heppnaða og Star Trek (2009) var í að byrja gamla þreytta seríu alveg upp á nýtt, án þess að eyðileggja það sem fyrir var. Andy Serkis ber myndina á herðum sínum sem Sesar, og hinir aparnir eru margir skemmtilegir karakterar líka. Mennsku karakterarnir eru ekki allir eins áhugaverðir (James Franco, geisp) en skemma þó ekkert fyrir. Hlakka til að sjá meira.

2. Drive

Drive er sú mynd sem flestir hafa keppst við að hlaða lofi á þetta árið, sem veldur því að óumflýjanlega fara aðrir að benda á að hún sé ofmetin. Ég vil meina að hún eigi það lof sem hún fær skilið. Hinn danski Nicolas Winding Refn (sem ég þarf að fara að sjá fleiri myndir eftir) tekur fína glæpasögu og gerir eitthvað allt annað út henni. Myndin er fyrst og fremst æfing í stíl og tekst það frábærlega. Ryan Gosling, er eitursvalur í aðalhlutverkinu, Carey Mulligan, Ron Pearlman og Albert Brooks frábær á hliðarlínunni. Mörg af eftirminnilegustu atriðum myndarinnar eru án tals, en koma samt spennu, togstreitu og tilfinningum persónanna fyllilega til skila. Þeir Gosling og Winding Refn hyggja á frekara samstarf á næstunni og hvað sem kemur út úr því verður ómissandi að sjá.

1. Hodejegerne (Headhunters)

Headhunters var frábær mynd. Ég vissi lítið sem ekkert um hana fyrir áhorf, bara að hún væri byggð á einhverri norskri glæpasögu, og hafði vissar hugmyndir byggðar á helstu klisjum þeirra, sem og titli myndarinnar. Allt sem ég hélt reyndist rangt. Frá fyrsta augnabliki var myndin grípandi, Aksel Hennie, sem er sennilega einn flottasti leikari norðurlandanna brilleraði í hlutverki aðalpersónunnar Roger Brown, og Nicolai Coster Waldau (Jaime úr Game of Thrones) er stórhættulegur í hlutverki andstæðings hans. Ég vil helst ekki segja neitt um plott myndarinnar því að ég naut þess svo að vita ekki neitt hvert myndin stefndi, en ég hvet alla sem hafa gaman að vel gerðum kvikmyndum til að kíkja á þessa. Þeir segja að Bandarísk endurgerð sé væntanleg, en ég sé ekki hvað hún ætti að bæta. Sjáið þessa.

Þetta var listinn! Hann lítur eflaust furðulega út í augum margra, og kemur jafnvel sjálfum mér á óvart núna eftir að ég skrifaði hann. Aðrar myndir sem mér fannst góðar voru m.a. Harry Potter and the Deathly Hallows Pt.2, The Ides of March, The Help, X-Men: First Class, Midnight in Paris, Okkar Eigin Osló, Thor, Bridesmaids og The Green Hornet (já hún).

Þetta er svo sem ekkert annað en samtýningur af kvikmyndum sem ég hélt upp á. En var bíóárið gott eða slæmt. Svona í meðallagi bara – eins og sést á listanum fannst mér ekki mikið af stórum Hollywood myndum sem sköruðu fram úr. Það ætti að breytast á næsta ári, með Prometheus, The Dark Knight Rises og The Hobbit. Hvernig fannst ykkur annars árið? Hvaða myndum gleymdi eða vanrækti ég? Hvaða myndir fannst ykkur standa upp úr á árinu? Setti ég einhverjar á lista sem ykkur fannst alls ekki eiga það skilið?