Útsmoginn Bridge spilari – ný í Fargo 3

10 Cloverfield Lane leikkonan Mary Elizabeth Winstead hefur verið ráðin í þriðju þáttaröð hinna stórgóðu sjónvarpsþáttaraðar Fargo, en fyrir eru ný í þessari þáttaröð þau Ewan McGregor og Carrie Coon.

mary elizabeth winstead

Sagan í þáttaröðinni er enn að mestu á huldu, en þó liggja fyrir smá upplýsingar um hvaða hlutverk þessir nýliðar hafa tekið að sér; McGregor leikur bræðurna Emmit og Ray Stussy, en þeir hafa farið hvor í sína áttina í lífinu. Emmit er fyrirmyndaríbúi í bænum sínum í Minnesota, myndarlegur athafnamaður, sem virðist lifa ameríska drauminn til fullnustu. Ray hinsvegar toppaði í miðskóla, og vinnur sem skilorðseftirlitsmaður, og öfundar bróður sinn af velgengninni.

Coon leikur Gloria Burgle, rólegan og yfirvegaðan lögreglustjóra í Eden Valley, þar sem fólk virðist eiga betra samband við símana sína en við hvert annað.  Winstead leikur Nikki Swango, útsmogna en heillandi konu sem er laus á skilorði, og elskar að spila Bridge. Nikki veit hvað hún vill, og passar sig á því, að vera alltaf einu skrefi á undan andstæðingnum.

Þáttaröðin mun gerast árið 2010 ( fyrsta þáttaröð gerðist árið 2006 og önnur þáttaröðin árið 1979 ) og kemur á skjáinn á næsta ári, 2017.